Körfubolti

Enginn í NEC-deildinni passaði betur upp á boltann en Martin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. Vísir/Stefán
Körfuboltamaðurinn Martin Hermannsson er heldur betur áberandi á tölfræðilistum NEC-deildar bandaríska háskólakörfuboltans en deildarkeppninni lauk á dögunum og framundan er úrslitakeppnin.

Martin er á sínu öðru ári með LIU Brooklyn skólanum og hefur heldur betur tekið stökk í sínum leik og tölfræðin sýnir það svart á hvítu. Martin er reyndar bara efstur í einum tölfræðiþætti en hann er meðal allra efstu manna á mörgum listum til viðbótar.

Martin var sem passaði best upp á boltann í NEC-deildinni sem er sá sem á flestar stoðsendingar á móti hverjum töpuðum boltum. Martin gulltryggði sér toppsætið með því að gefa 14 stoðsendingar í síðustu tveimur leikjunum án þess að tapa einum einasta bolta á móti.

Martin gaf alls 136 stoðsendingar á móti 62 töpuðum boltum sem gerir 2,19 stoðsendingar á hvern tapaðan bolta. Sá sem kom næstur var með 1,90 stoðsendingar á móti hverjum töpuðum bolta.

Martin var einni eini leikmaður NEC-deildarinnar sem var meðal efstu fjögurra í bæði stigum skoruðum og stoðsendingum. Martin varð í 3. sæti í stoðsendingum með 4,69 í leik og þá varð hann fjórði stigahæsti leikmaður deildarinnar með 16,5 stig í leik.

Martin varð einnig í 2. sæti yfir bestu vítanýtinguna (88,8 prósent), í 4. sæti yfir flesta stolna bolta (1,76), í 11. sæti yfir bestu 3ja stiga skotnýtinguna (36,7 prósent) og í 13. sæti yfir bestu skotnýtinguna utan af velli (46,2 prósent).

Úrslitakeppni í NEC-deildarinnar hefst á fimmtudagskvöldið þegar Martin og félagar í LIU Brooklyn mæta Sacred Heart skólanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×