Skoðun

Enginn hvati til atvinnuþátttöku vegna 100% skerðinga

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir skrifar
Öryrkjar lenda ófáir í þeirri stöðu að lágar tekjur svo sem af atvinnu eða úr lífeyrissjóði breyta engu um fjárhagslega afkomu þeirra. Ráðstöfunartekjur þeirra eru þær sömu með og án þessara tekna.[1] Þó atvinnuþátttaka sé mjög mikilvæg og stuðli m.a. að aukinni virkni einstaklingsins þá gefst fólk upp á atvinnuþátttöku ef það þarf að borga með sér. Því fylgja útgjöld að vera á vinnumarkaði s.s. ferðir í og úr vinnu. Almennt vill fólk einnig hafa fjárhagslegan ávinning af atvinnu. Hvað þarf að gera til að koma í veg fyrir þessar miklu skerðingar og hvetja til atvinnuþátttöku þessa hóps og hvers vegna er þessu háttað á þennan veg?   

 Klipið duglega af greiðslum til lífeyrisþega

Hið opinbera klípur oft duglega af greiðslum til lífeyrisþega úr tveimur áttum. Annars vegar í gegnum tekjuskatt og/eða fjármagnstekjuskatt og hins vegar með tekjutengingum, þar sem skattskyldar tekjur fyrir skatt skerða lífeyrisgreiðslur, sem fólk fær úr almannatryggingakerfinu. Veigamest er tekjutenging á  sérstaka uppbót til framfærslu en hún skerðist krónu á móti krónu.

 Lágar bætur almannatrygginga og reglur um sérstaka framfærsluuppbót hafa það í för með sér að lífeyrisþegar (elli-, örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar) sem fá sérstaka uppbót til framfærslu eru í raun fastir í fátæktargildru þrátt fyrir að hafa burði til að afla sér tekna að einhverju marki og reyna að vega þannig upp á móti lágum bótum. Fjárhagslegur stuðningur eða viðbótartekjur skerða eða eyða út framfærsluuppbótinni og viðkomandi er í sömu sporum fjárhagslega og án þeirra. Lítum á dæmi:

 Örorkulífeyrisþegi* með 35.000 kr. atvinnutekjur á mánuði fyrir skatt.

 

Tekjur frá TR með 35.000 kr.atvinnutekjur

Til samanburðar: Tekjur frá TR án atvinnutekna

Atvinnutekjur fyrir skatt

35.000

0

Bætur TR fyrir skatt

148.211

181.769

4% iðgjald

1.400

0

Staðgreiðsla

19.367

19.351

Til ráðstöfunar

162.444

162.418

*Fyrsta örorkumat 30 ára – býr með öðrum. Reiknað út í reiknivél lífeyris á heimasíðu TR – 2013.

Örorkulífeyrisþeginn í dæminu fær útborgað á mánuði 21.660 kr. frá vinnuveitanda en sömu tekjur (35.000 kr. fyrir skatt) skerða greiðslur TR til hans um 33.558 kr. á mánuði. Því gefa 35.000 kr. atvinnutekjur á mánuði (fyrir skatt) aðeins 26 kr. hærri ráðstöfunartekjur fyrir utan 1.400 kr. iðgjald, sem fer til lífeyrissjóðs. Meginhluti greiðslnanna eða 96% tekur ríkið til sín í formi tekjuskatts og tekjutenginga.

35.000 kr. atvinnutekjur á mánuði fyrir skatt:

  1.400 kr. 4% iðgjald til lífeyrissjóðs (lögbundin skylduaðild)

       26 kr. hærri ráðstöfunartekjur

33.574 kr. eða 96% af 35.000 kr. fær ríkið í gegnum tekjuskatt og tekjutengingar 

Svipuð útkoma yrði ef 35.000 kr. atvinnutekjum yrði skipt út fyrir 35.000 kr. lífeyrssjóðstekjur á mánuði. Það gleymist gjarnan þegar rætt er um útgjöld til almannatrygginga hversu stóran hluta ríkið tekur til baka með skerðingum, tekjutengingum og skatti.

 Afnám krónu á móti krónu skerðingar þarf að ganga jafnt yfir alla lífeyrisþega

Í grein sem Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins birti í Morgunblaðinu 9. apríl 2013 segir að krónu  á móti krónu skerðingum vegna greiðslna á ellilífeyri verði hætt og ellilífeyrinn leiðréttur til samræmis við þær hækkanir sem orðið hafa á lægstu launum síðan í ársbyrjun 2009. Mikilvægt er að leiðréttingarnar og afnám skerðinganna gangi jafnt yfir alla lífeyrisþega, þ.e. elli- ,örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.

 Stangast á við samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks (SRFF)

Aukin réttindi til að afla tekna án þess að þær skerði bætur, myndi auka virkni og bæta lífsskilyrði lífeyrisþega auk  þess sem þeir gefa meira til samfélagsins. Skerðingar letja til atvinnuþátttöku og ganga þvert gegn 3. og 5. gr. SRFF. Í 3. gr. er kveðið á um bann við mismunun, jöfn tækifæri og að fatlað fólk geti tekið fullan og virkan þátt í samfélaginu án aðgreiningar. Í 5. gr. er fjallað um jafnrétti og bann við mismunun, en þar kemur m.a. fram að allir eigi rétt á jöfnum hag lögum samkvæmt. Skerðingarnar valda enn fremur óbeinni mismunun. Á óbeinan hátt er komið í veg fyrir atvinnuþátttöku hóps fatlaðs fólks, þar sem þessir einstaklingar bera ekkert úr bítum og hafa jafnvel eingöngu kostnað af atvinnuþátttöku. Í 27. gr. samningsins viðurkenna aðildarríkin rétt fatlaðs fólks til jafns við aðra til vinnu, en í því felst réttur til að fá ráðrúm til að afla sér lífsviðurværis með vinnu að eigin vali.  

Hvað er til ráða?

Öryrkjabandalag Íslands leggur til að sérstök framfærsluuppbót verði sameinuð grunnlífeyri og lúti sömu reglum og hann. Með því móti væri hægt að afnema krónu á móti krónu skerðingar til lífeyrisþega. Jafnframt þarf að tryggja að enginn lífeyrisþegi, óháð lengd búsetu á Íslandi, verði með heildartekjur undir ákveðnu viðmiði.




[1] Í grein í vefriti ÖBÍ undir heitinu „Ríkið tekur til sín hátt hlutfall lífeyrissjóðstekna“ er farið yfir skerðingar gagnvart lífeyrissjóðstekjum (1. árg. 3. tölublað). 




Skoðun

Sjá meira


×