Innlent

Enginn dýralæknir á Austurlandi næstu vikurnar

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir.
Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir. Mynd/Magnús Hlynur Hreiðarsson/Getty
Matvælastofnun hefur á undanförnum mánuðum auglýst í þrígang eftir dýralæknum til að þjónusta Fljótsdalshérað, Fljótsdalshrepp, Borgarfjarðarhrepp, Seyðisfjarðarkaupstað og Fjarðabyggð (að undanskildum Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði) en án árangurs.

Þjónustusamningurinn verður áfram laus til umsóknar, en stofnunin telur að breyta þurfi reglum til að finna lausn sem stuðlar að því að tryggja dýralæknaþjónustu á svæðinu til lengri tíma. Tveir dýralæknar á svæðinu eru sjálfstætt starfandi, en hafa nú tilkynnt um fjarveru til 4. janúar 2015.

Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir, og aðrir fulltrúar stofnunarinnar hafa fundað með landbúnaðarráðherra og öðrum starfsmönnum ráðuneytisins og gert grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem fyrirsjáanleg var og er nú komin upp eftir að starfandi dýralæknar á þessu svæði fóru í tímabundið leyfi. Þá hefur verið óskað eftir breytingu á reglugerð um dýralæknaþjónustu.

„Matvælastofnun harmar þá stöðu sem dýraeigendur á Austurlandi standa frammi fyrir meðan enginn dýralæknir er starfandi á svæðinu eða sækir um þann samning sem í boði er og á meðan stjórnvöld hafa ekki gefið svar um þá framtíðarlausn sem stofnunin hefur lagt til,“ segir í tilkynningu frá stofnuninni.

Héraðsdýralæknir Austurumdæmis, Eyrún Arnardóttir, er nú í fæðingarorlofi en samið hefur verið við Hákon Hansson á Breiðdalsvík og jafnframt héraðsdýralæknana Ólaf Jónsson í Norðausturumdæmi og Gunnar Þorkelsson í Suðurumdæmi um að sinna störfum héraðsdýralæknis.

Ásdís Helga Bjarnadóttir, dýraeftirlitsmaður í Austurumdæmi, tekur við öllum erindum sem berast til umdæmisskrifstofunnar og deilir þeim út til réttra aðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×