Viðskipti innlent

Engin verðbólga í október

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 0,14% milli mánaða.
Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 0,14% milli mánaða. VISIR/VALGARÐUR
Verðbólgan í október var engin þrátt fyrir að vísitala neysluverðs hafi hækkað um 0,14% milli mánaða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins.

Þar kemur fram að skýringin sé sú að áhrif vegna lækkunar flugfargjalda voru ofmetin í vísitölu síðasta mánaðar um 0,17%. Verðbólgan síðustu 12 mánuði er 1,9% og hefur verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í 10 mánuði samfleytt.

Verðlag er nú stöðugra en í heilan áratug og ef hækkanir á húsnæði eru undanskildar er verðlag óbreytt frá því í desember 2013. Verðbólga hefur verið að minnka undanfarna mánuði og ef horft er til síðustu fjögurra mánaða er verðbólgan aðeins 1% á ársgrundvelli. Verðbólguvæntingar hafa jafnframt hjaðnað mikið.

„Þetta eru góðar fréttir því á sama tíma hefur tekist að auka kaupmátt launa eins og að var stefnt í síðustu kjarasamningum. Fyrir ári síðan hvöttu Samtök atvinnulífsins til þess að launahækkanir yrðu sambærilegar og í nágrannalöndunum,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×