Enski boltinn

Engin sektarkennd hjá Skrtel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Martin Skrtel, varnarmaður Liverpool, segir að hann finni ekki til neinnar sektarkenndar eftir að hann var dæmdur í þriggja leikja bann fyrir að traðka á David De Gea, markverði Manchester United.

Atvikið átti sér stað í leik liðanna á sunnudag en þar sem dómari leiksins, Martin Atkinson, sá það ekki gat aganefnd enska knattspyrnusambandsins kært Skrtel.

Skrtel, sem er þrítugur Slóvaki, áfrýjaði og sagði að um óviljaverk hafi verið að ræða.

„Þetta er skrýtið því ég áfrýjaði en samt fékk ég þriggja leikja bann. Ég vildi ekki traðka á honum. Þetta var slys og ég gerði þetta ekki viljandi,“ sagði Skrtel.

„Ég finn ekki til sektarkenndar. Þetta var langur bolti fram og hann kom út á móti mér. Ég ætlaði að stökkva yfir hann. Svo einfalt var það.“

Skrtel birti mynd af trúðum á Instagram-síðunni sinni eftir að dómurinn var kveðinn upp en ólíklegt að honum verði refsað fyrir það.

Slóvakía mætir Lúxemborg í undankeppni EM 2016 í dag og verður Skrtel væntanlega í eldlínunni þá.


Tengdar fréttir

Skrtel dæmdur í bann

Martin Skrtel, varnarmaður Liverpool, þarf að taka út þriggja leikja bann fyrir að traðka á David de Gea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×