Viðskipti erlent

Engin olía í nyrstu holu norðurslóða

Kristján Már Unnarsson skrifar
Skip Greenpeace við borpallinn í Barentshafi í síðasta mánuði.
Skip Greenpeace við borpallinn í Barentshafi í síðasta mánuði. Mynd/Greenpeace.
Borpallur Statoil, sem liðsmenn Greenpeace hlekkjuðu sig við í Barentshafi í síðasta mánuði, fann enga olíu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Olíustofnun Noregs. Þetta var nyrsti brunnur sem boraður hefur verið til þessa á heimskautasvæðum, um 350 kílómetra norðan við Hammerfest. Hafdýpið var 443 metrar og fór borinn 1.050 metra niður í hafsbotninn. Holan reyndist þurr.

Borpallurinn Transocean Spitsbergen hefur nú yfirgefið svæðið og holunni verið lokað varanlega. Pallurinn fór þó ekki langt því hann er þegar búinn að koma sér fyrir á nýjum borstað. Framundan er að bora tvo aðra brunna á sömu slóðum austur af Bjarnarey. Það er því ekki útséð hvort nyrstu olíulindir jarðar finnist í sumar.

Greenpeace hefur ítrekað mótmæli sín gegn olíuborunum á norðurslóðum. Ekki er þó vitað til þess að samtökin sendi aftur skip á svæðið. Aðgerðum þeirra í síðasta mánuði lauk með því að norska lögreglan handtók Grænfriðungana og norskt varðskip dró skip þeirra burt frá borpallinum.


Tengdar fréttir

Lögregla handtók Grænfriðungana

Norska lögreglan fór í nótt um borð í borpallinn Transocean Spitsbergen í Barentshafi og batt enda á mótmæli Greenpeace.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×