Innlent

Engin lög til um frístundaheimili

Linda Blöndal skrifar
Engin lög eru til um starfsemi frístundaheimila hér á landi en um 90 prósent sveitarfélaga bjóða slíka þjónustu. Ekkert yfirlit er heldur til um skráningu á slík heimili og rannsóknir á áhrifum starfsins vantar sárlega, segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir lektor og skýrsluhöfundur um slík heimili.

Í grunnskólalögum er heimild til að bjóða upp á lengda viðveru barna 6 til 9 ára á frístundaheimilum og raunar er gert ráð fyrir að í hverjum skóla sé skipulagt félags- og tómstundastarf. 

Almennar reglur um starfsemina skortir hins vegar og ólík viðmið eru á milli sveitarfélaga um barnafjölda, menntun starfsmanna og þjónustustig. Þá eru ekki fastar reglur um hve margir starfsmenn eru á heimilunum miðað við fjölda barna en börnin geta verið frá 12 til 18 talsins á hvern starfsmann. Þá er almennt ekki gerð sérstök krafa um menntun starfsmanna.

Meirihlutinn er á frístundaheimili                                                    

Í skýrslu sem gerð var á þessu ári fyrir menntamálaráðuneytið kom í ljós að 60 prósent barna á aldrinum 6-9 ára á landinu eru skráð á einhvers konar frístundaheimili. Kolbrún Þ. Pálsdóttir lektor við Háskóla Íslands í tómstunda- og félagsmálafræði er skýrsluhöfundurinn.

Hún segir að foreldrar yngri barna nýti þjónustuna meira og flest séu þau til 16 eða 17 á daginn. Vandinn sé þó að hvergi sé að finna opinberar tölur um skráningu barna á frístundaheimilin eða hvað þar almennt fer fram.

Dvelja klukkustundum saman á heimilunum                        

Börnum hefur fjölgað undanfarin ár sem dvelja marga klukkutíma í viku á frístundaheimili. Þá stendur stórum hluta barna til boða heilsdagsdvöl á starfsdögum skóla. Fimmtungi stendur til boða heilsdagsdvöl í vetrarfríum og helmingnum um að dvelja þar allan daginn á sumrin. 

Linda Blöndal



Fleiri fréttir

Sjá meira


×