Innlent

Engin leið að greina uppruna Fresco-músarinnar

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Tveggja til þriggja vikna músarungi fannst í Fresco salati í vikunni. Talið er að hún hafi borist til landsins í spínatpoka.
Tveggja til þriggja vikna músarungi fannst í Fresco salati í vikunni. Talið er að hún hafi borist til landsins í spínatpoka. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur
„Engir ytri áverkar voru á dýrinu og dánarorsök var óþekkt,“ segir Óskar Ísfeld Sigurðsson deildarstjóri matvælaeftirlits hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur í samtali við Vísi um músarungann sem fannst í Fresco salati á þriðjudag.

Unginn var sendur í greiningu þar sem átti að reyna að kanna hvort hann sé íslenskur eða hafi borist hingað til lands með matvælum. Í dag fékk Heilbrigðiseftirlitið skriflega skýrslu frá sérfræðingnum sem rannsakaði málið hjá Keldum, tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði.

Spínatið innkallað til að tryggja öryggi

Óskar segir að í skýrslunni komi fram að nagdýrið var 6,1 gramm að þyngd og 111 millímetrar að lengd, þar af var skottið 55 millímetrar. Útfrá lengd og þyngd er talið að músarunginn hafi verið tveggja til þriggja vikna gamall þegar hann drapst, ef tekið er mið af vaxtarkúrfu. Ekki var hægt að greina hvenær dýrið hafði drepist eða hvernig, engir ytri áverkar voru á því. Unnið var út frá þeirri kenningu að músarunginn hafi borist hingað í lokuðum spínatpoka.

Azora spínatið var innkallað í kjölfarið í varúðarsjónarmiði eftir að tilkynnt var um aðskotahlutinn í salatinu. „Við unnum útfrá þessari tilgátu til þess að tryggja öryggi þessara matvæla og tryggja öryggi neytenda,“ segir Óskar.

Í skýrslunni kemur fram að ekki var hægt að greina hvort dýrið hafi verið innlent eða nýlega innflutt.

„Þar kemur fram að þetta sé húsamús að latneska heitinu Mus mus culus.“

Telja enn að líklegast hafi músin komið með spínatinu

Innihald maga ungans var skoðaður og allur meltingarvefur dýrsins var fullur af því sem virtist vera korn og fræ. Engin fersk græn blöð var að finna í maga músarungans svo ef hún kom til Íslands í spínatpoka var hún væntanlega ekki lifandi í pokanum, dýrið hafði nýlega borðað áður en það drapst.

„Það verður aldrei hægt að segja raunverulega af eða á um það,“ svarar Óskar aðspurður um það hvort hægt sé að staðfesta að kenningin sem unnið er út frá sé rétt.

„Við teljum ennþá að okkar tilgáta sé líklegasta skýringin á því sem hafi gerst.“

Hann segir að salatfyrirtækið hafi nú breytt um verklag hvað varðar þvott á spínati og öðrum matjurtum sem höfðu ekki verið þvegnar. Spínat verður nú alltaf þvegið á veitingastaðnum.  

„Það kom alveg skýrt fram að það hefur ekki verið þvegið. Við fengum upplýsingar um það strax sama kvöld að þessu verklagi verður breytt. Það var búið að eyða allri þessari vöru sem lá undir grun og það var engin ástæða til þess að staðurinn væri lokaður áfram.“


Tengdar fréttir

Spínat innkallað vegna músarmálsins

Innes hefur í samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur innkallað innflutt spínat í 150 gr. og 500 gr. einingum vegna gruns um aðskotahlut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×