Innlent

Engin heilbrigð stefna í málefnum heilabilaðra

Sveinn Arnarsson skrifar
Næstum öll vestræn ríki hafa sett sér stefnu í málefnum heilabilaðra.
Næstum öll vestræn ríki hafa sett sér stefnu í málefnum heilabilaðra.
Ísland er eitt fárra landa sem ekki hafa sett sér stefnu í málefnum heilabilaðra sjúklinga en þörf er á slíkri stefnu að mati Landspítalans til að draga úr vaxandi kostnaði við sjúklingahópinn. Meðallegutími á sérdeild fyrir einstaklinga með heilabilun á Landakoti í fyrra var 55 dagar en aðeins tvær til þrjár vikur á samsvarandi deildum á Norðurlöndum.

„Ísland er eitt fárra vestrænna landa sem ekki hafa lagt fram stefnu í málaflokknum sem fer sístækkandi. Á Landspítala höfum við mikinn metnað fyrir eflingu þjónustu við þennan mikilvæga en viðkvæma sjúklingahóp og rekum sérstaka heilabilunareiningu,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala. Þjónusta við þennan hóp og fjölskyldur þeirra er að líkindum ekki undir 10 milljörðum króna á ári. „Það er mikilvægt út frá kostnaðarsjónarmiði að móta stefnu í þessum málaflokki, en þó fyrst og síðast þjónar það hagsmunum sjúklinganna og fjölskyldna þeirra. Þessi staða kallar á fjölbreyttar lausnir og við þurfum sérstaklega að horfa til þess að unnt verði að þjónusta þessa einstaklinga sem mest utan spítala.“

Í umsögn Landspítalans um þingsályktunartillögu þingmanna Samfylkingar er bent á að kostnaður vegna heilabilunar á heimsvísu er risavaxinn og talinn meiri en af krabbameinum og hjartasjúkdómum til samans. Eykst kostnaðurinn vegna fjölgunar sjúklinga og dýrari þjónustu við hvern sjúkling.

„Ísland er eina Norðurlandaþjóðin og ein örfárra Evrópuþjóða sem ekki hefur markað sér stefnu varðandi þennan sjúklingahóp. Þetta er vandi sem þarf að takast á við,“ segir Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingar. „Hér er bæði um sjúkdóm einstaklinga að ræða og sjúkdóm sem leggst mjög hart á fjölskyldur þeirra sem greinast með heilabilun. Við höfum ekki markað okkur þessa stefnu og hvernig við verjum fjármagni í málaflokknum. Við sem þjóð ættum að gera mun betur í þessum málaflokki.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×