Innlent

Engin fangelsisvist fyrir að hafa ráðist á þungaða konu sína

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Konan var gengin 30 vikur með barnið þegar maðurinn réðst á hana.
Konan var gengin 30 vikur með barnið þegar maðurinn réðst á hana. Vísir/Getty
Karlmaður á Vesturlandi hefur verið dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Vesturlands fyrir að hafa tvívegis ráðist á sambýliskonu sína. Var konan komin þrjátíu vikur á leið þegar fyrri árásin átti sér stað en tvö börn þeirra urðu vitni að síðari árásinni.

Maðurinn réðst í fyrra skiptið á konuna á heimili þeirra í febrúar 2015. Sneri hann hana niður í gólfið, sló með flötum lófa í andlitið og hélt henni niðri með því að liggja á hnjánum ofan á mjöðm hennar.

Í síðara skiptið, í júní sama ár, urðu börn þeirra vitni að því þegar faðir þeirra tók móðurina hálstaki aftan frá og sneri hana niður í gólfið. Tók hann kverkataki um háls hennar, sló með flötum lófa í andlitið, dró hana með báðum höndum á hárinu um tvo metra á gólfinu og steig á vinstri hlið háls hennar með ylinni.

Hlaut konan margs konar áverka sem lesa má nánar um í dómnum en auk þess komust börn þeirra í mikið uppnám og misbauð þeim hegðun föður síns verulega.

Maðurinn játaði brotin en farið var fram á þrjár milljónir króna í bætur fyrir konuna, milljón fyrir son þeirra og hálfa milljón fyrir dóttur. Þarf maðurinn að greiða konunni 400 þúsund krónur í bætur til konunnar og 100 þúsund krónur til hvors barns.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×