Enski boltinn

Engin brúðkaupsferð hjá Vardy sem giftir sig á miðvikudaginn og mætir svo á æfingu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jamie Vardy skoraði 24 mörk í úrvalsdeildinni.
Jamie Vardy skoraði 24 mörk í úrvalsdeildinni. vísir/getty
Jamie Vardy, framherji Englandsmeistara Leicester, verður ekki með enska landsliðinu sem mætir Ástralíu í vináttuleik á Wembley á föstudaginn. Vardy fær stutt frí til að ganga í það heilaga með unnustu sinni á miðvikudaginn.

Vardy frestaði brúðkaupi sínu á síðasta ári og færði það svo aftur en til stóð að hann myndi gifta sig í júní á þessu ári. Þegar hann fór að raða inn mörkum í ensku úrvalsdeildinni og komst í landsliðið var orðið ljóst að hann yrði upptekinn með Englandi á EM í Frakklandi.

„Hann verðskuldar þetta frí,“ sagði Roy Hodgson, þjálfari enska landsliðsins, um framherjann magnaða sem skoraði 24 mörk í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og varð næstmarkahæstur á eftir félaga sínum í landsliðinu, Harry Kane.

„Staða hans í liðinu á þessari stundu er ekki í mikilli hættu og svo eru líka aðrir leikmenn sem við þurfum að skoða,“ sagði Hodgson við fréttamenn.

Vardy fer þó ekki í neina brúðkaupsferð enda er hann staðráðinn í að vera í byrjunarliði enska landsliðsins í fyrsta leiknum á Evrópumótinu.

„Stjórinn gaf mér frí á miðvikudaginn til að gifta mig en ég mæti á æfingu beint eftir það,“ segir Jamie Vardy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×