Innlent

Engin ástæða til þess að breyta sögu Ingólfs Arnarsonar

Valur Grettisson skrifar
Skálinn á Reykjanesi.
Skálinn á Reykjanesi.
„Þetta er mjög spennandi og gaman að fylgjast með þessu," segir Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Forleifarverndar ríkisins um uppgötvun Dr. Bjarna F. Einarssonar.

Fréttablaðið ræddi við Bjarna í dag og kom þar fram að fornleifarannsóknir á mannvistarleifum í Höfnum á Reykjanesi benda til þess að þar sé fundinn skáli sem hafi verið byggður talsvert fyrir hið hefðbundna landnám undir lok níundu aldar.

Niðurstöður kolefnisaldursgreiningar gefa til kynna að skálinn hafi verið yfirgefinn á árabilinu 770 til 880, sem gefi tilefni til að áætla að hann hafi verið byggður fyrir hið „sagnfræðilega landnám" sem er jafnan miðað við árið 874.

Kristín segist ekki hafa skoðað rannsóknir Bjarna sérstaklega og tali því almennt um málið. Hún bendir hinsvegar á að vísindamenn geri ráð fyrir því að fólk hafi verið hér á landi fyrir hið sagnfræðilega landnám.

„Það hafa fundist minjar sem benda til þess, en þær eru reyndar ekki svona gamlar," segir Kristín og á þá við fornleifafund Bjarna.

Það eru ekki aðeins Íslendingar sem eru að uppgötva að landnám hafi orðið fyrr en talið var, þannig hafa Færeyingar fundið nýlega minjar sem gætu verið frá fimmtu öld. Það gæti bent til þess að umferð í kringum Ísland og nærri hafi verið meiri en talið er.

Spurð hvort uppgötvun Bjarna verði til þess að það þurfi að endurskrifa sögu- og kennslubækur svarar Kristín: „Það er engin ástæða til þess að breyta sögu Ingólfs Arnarsonar á þessum tímapunkti."

Kristín segir að ef fleiri mannvirki finnist frá sama tíma þá þurfi að sjálfsögðu að breyta sögubókunum.

Sjálfur sagði Bjarni í viðtali Fréttablaðsins að fornleifafundurinn kollvarpaði hefðbundnum skýringum á landnámi Íslands.

„Þannig hefur búseta á Íslandi þróast úr því að vera útstöð hluta úr árinu yfir að endanlegu landnámi. Það kemur í stað þess að ímynda sér síðhærðan, reiðan kóng í Noregi sem rak höfðingja í burtu til Íslands. Það er hreinasti tilbúningur og rómantísering á upphafi okkar, til að réttlæta Íslendinga sem hluta af efri stétt Skandinava," sagði Bjarni um rómað landnám Ingólfs.


Tengdar fréttir

Kollvarpa hefðbundnum skýringum á landnámi Íslands

Fornleifarannsóknir á mannvistarleifum í Höfnum á Reykjanesi benda til þess að þar sé fundinn skáli sem hafi verið byggður talsvert fyrir hið hefðbundna landnám undir lok níundu aldar. Fornleifafræðingur telur að í skálanum felist nánari skýring á ástæðum þess að landnámsmenn settust að á Íslandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×