Innlent

Engin ákvörðun um lögbann á Ríkisútvarpið

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Stundin hefur að undanförnu unnið fréttir úr gögnum frá Glitni, í samstarfi við Reykjavík Media og breska fjölmiðilinn The Guardian.
Stundin hefur að undanförnu unnið fréttir úr gögnum frá Glitni, í samstarfi við Reykjavík Media og breska fjölmiðilinn The Guardian. vísir/heiða
„Það hafa engar ákvarðanir verið teknar um það,“ segir Ingólfur Hauksson, framkvæmdastjóri Glitnis HoldCo, aðspurður hvort félagið muni fara fram á lögbann á fréttaflutning Ríkisútvarpsins.

Ingólfur Hauksson, framkvæmdastjóri Glitnis HoldCo.
Ríkisútvarpið hóf um helgina að birta fréttir af viðskiptum Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra á árum áður upp úr sambærilegum gögnum og Stundin og Reykjavík Media hafa undir höndum og höfðu birt röð frétta upp úr þar til Sýslumaðurinn í Reykjavík féllst á lögbannskröfu Glitnis í síðustu viku.

Spurður hvort ekki liggi beinast við að fara fram á lögbann yfir Ríkis­útvarpinu líka í ljósi forsögunnar kveðst Ingólfur ekkert vilja tjá sig um það.

Lögbannið meinar Stundinni og Reykjavík Media frekari fréttaflutning af viðskiptagerningum Bjarna og fjölskyldu hans fyrir hrun sem byggir á gögnum innan úr þrotabúi Glitnis.

Í gær fór fram staðfestingarmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna lögbannsins. Í stefnunni sem Fréttablaðið hefur undir höndum má þó sjá fyrirætlan Glitnis. Þar var lögð fram ný krafa um að miðlunum verði bannað að birta eða fá aðra miðla til að birta fréttir byggðar á gögnunum.

Lögbannið hefur verið harðlega gagnrýnt sem aðför að tjáningarfrelsi fjölmiðla og fordæmt af fólki, flokkum jafnt sem samtökum.


Tengdar fréttir

Ritstjóri segir Bjarna að líta í eigin barm

Forsætisráðherra svarar spurningum um fréttir Stundarinnar sem hann hefur ekki viljað svara Stundinni um. Bjarni Benediktsson segir öll sín viðskipti við Glitni standast skoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×