Innlent

Engar vísbendingar um hver strengdi vírinn yfir hjólabrúna

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Vírinn var strengdur þvert fyrir hjólabrú yfir Elliðaár.
Vírinn var strengdur þvert fyrir hjólabrú yfir Elliðaár. Vísir / Daníel
Engar vísbendingar hafa komið fram um hver kann að hafa verið að verki á hjólabrúnni yfir Elliðaár um helgina. Vír var strengdur þvert yfir brúna með þeim afleiðingum að hjólreiðamaður slasaðist eftir að hafa hjólað á vírinn.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er með málið til rannsóknar og hefur verið auglýst eftir vitnum og upplýsingum sem gætu varpað ljósi á málið. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni hefur það ekki borið árangur ennþá.

Morten Lange, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna, sagði í samtali við Vísi í morgun að hann teldi rétt að rannsaka málið sem líkamsárás en ekki slys. Lögreglan gat engar upplýsingar gefið um hvaða augum málið væri litið þar, það væri einfaldlega til rannsóknar.

Hjólreiðamaðurinn sem lenti á vírnum flaug nokkra metra framfyrir sig og slasaðist talsvert. Maðurinn þurfti að leita á slysadeild og sauma þurfti tíu spor í enni hans. Auk þess er hann líklega tognaður á öxl en hann er verulega marinn og bólginn víðs vegar um líkamann.


Tengdar fréttir

„Þetta er líkamsárás, ekki slys“

Morten Lange, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna, harmar umræðu í kjölfar þess að vír var strengdur fyrir hjólastíg yfir Elliðaár. Borgarfulltrúi segir um að ræða alvarlegt tilræði gegn hjóla og hlaupafólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×