Lífið

Engar kylfur leyfðar á fótboltagolfvellinum

Baldvin Þormóðsson skrifar
Fótboltagolfvöllurinn hefur verið vel sóttur í sumar.
Fótboltagolfvöllurinn hefur verið vel sóttur í sumar. mynd/aðsend
„Þetta er svona sambland af íþróttum, þetta er alveg eins og golf en í staðinn fyrir að nota kylfur þá notarðu fótinn,“ segir Bára Magnúsdóttir, en hún sér um að reka fótboltagolfvöll á Markavelli á Flúðum ásamt fjölskyldu sinni.

„Holurnar eru nógu stórar fyrir fótbolta og þetta eru sömu brautir og eru á golfvöllum, þannig að það eru sömu reglur og gilda í golfi.“

Völlurinn hefur verið starfræktur í um það bil einn mánuð en sá er stærstur sinnar tegundar á Íslandi.

„Það eru til minni vellir en þetta er sá eini sem hefur átján holur,“ segir Bára en völlurinn hefur verið vel sóttur af ferðamönnum jafnt sem Íslendingum. „Þrátt fyrir ömurlegt veður þá hefur alveg slatti mætt,“ segir hún og hlær.

Foreldrar Báru bjóða upp á bændagistingu á bænum en þeim fannst vanta einhvers konar afþreyingu á bæinn.

„Þau höfðu heyrt af þessu fyrir þó nokkru í Danmörku,“ segir Bára. „Síðan þegar þau voru búin að hugsa þetta eitthvað þá ákváðu þau bara að kýla á þetta.“

Eins og áður hefur komið fram þá er fótboltagolfvöllurinn staðsettur á Markavelli sem er á milli Miðfells og Galtafells og er öllum velkomið að mæta og spreyta sig í íþróttinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×