Körfubolti

Engar áhyggjur af landsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jakob í leik með íslenska landsliðinu á EM í fyrra.
Jakob í leik með íslenska landsliðinu á EM í fyrra. vísir/valli
Einn besti körfuboltamaður sem Ísland hefur átt hin síðari ár, bakvörðurinn Jakob Örn Sigurðarson, hefur ákveðið að hætta að spila með íslenska landsliðinu. Jakob Örn er 34 ára og vill gefa sér eins mikinn tíma og hann getur fyrir fjölskyldu sína.

„Mér finnst mikilvægt að geta gefið fjölskyldu minni allan þann tíma sem ég get, ekki síst strákunum mínum sem eru á þeim aldri að þeir þurfa mikla athygli foreldranna,“ segir Jakob Örn en hann hefur verið búsettur í Svíþjóð síðustu árin og nú í Borås sem er í grennd við Gautaborg.

Jakob Örn lék 85 landsleiki frá 2000 til 2015, þann síðasta í úrslitakeppni Eurobasket, Evrópumótsins í körfubolta þar sem Ísland var á meðal þátttökuþjóða í fyrsta sinn. „Ég er mjög ánægður við minn landsliðsferil og geng sáttur frá honum,“ segir Jakob.

Jakob lék alls 85 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.vísir/valli
Hoppa ekki um borð fyrir stórmót

Jakob Örn gaf ekki kost á sér í landsliðið fyrir undankeppni EM fyrir tveimur árum síðan en kom svo inn í landsliðið fyrir lokakeppnina. Hann segir útilokað að það muni aftur gerast nú ef að Ísland endurtekur leikinn og kemst á EM 2017.

„Munurinn var að þá gaf ég ekki kost á mér en nú er ég einfaldlega hættur. Mér þætti það heldur ekki rétt að í hvert skipti sem að Ísland kemst á stórmót að þá hoppi ég inn. Mér líður vel með þessa ákvörðun því það eru ungir strákar að koma upp sem eru það góðir að þeir eiga skilið að fá stærra hlutverk og fleiri mínútur. Ég hef því ekki stórar áhyggjur af íslenska landsliðinu.“

Eins og sást á gengi U20 landslið Íslands á B-deild EM í sumar, sem sem strákarnir ungu unnu silfur og unnu Grikki á heimavelli í undanúrslitum, þá eru bjartir tímar fram undan í íslenskum körfubolta.

„Mér finnst að það hafi gengið mjög hratt fyrir sig, hversu góðir þeir eru orðnir. Við höfum alltaf alið upp góða bakverði í íslenskum körfubolta en nú eru stórir strákar eins og Tryggvi [Hlinason] og svo alhliða góður leikmaður eins og Kristinn Pálsson að koma upp. Þetta er góð blanda fyrir landslið framtíðarinnar.“

Jakob segir að Ísland geti komist aftur inn á EM.vísir/valli
Getum komist aftur á EM

Hann telur að Ísland eigi góða möguleika að tryggja sig inn á EM annað skiptið í röð. Siguvegari hvers riðils kemst áfram og svo fjögur af þeim sjö bestu liðum sem lenda í öðru sæti riðlanna. Ísland er í riðli með Belgíu, Sviss og Kýpur.

„Belgarnir eru sterkir og það vita allir. Ég tel að við séum með betra lið en Kýpur og að þetta verði barátta á milli okkar og Svisslendinga um annað sætið. Þá verður sérstaklega mikilvægt að stemningin á heimavelli verði góð því við getum vel unnið öll þessi lið á góðum degi á heimavelli,“ segir Jakob Örn sem hugsar mjög hlýlega til þátttöku Íslands á EM í fyrra.

„Þetta ævintýri fór fram úr öllum mínum væntingum og ég brosi alltaf innra með mér þegar ég hugsa um þennan tíma. Þetta var allt svo ótrúlega skemmtilegt og svo miklu stærra en ég bjóst við sjálfur. Fyrir mér var þetta toppurinn á mínum landsliðferli og ég er afar stoltur af að hafa fengið að taka þátt í þessu.“

Jakob varð meistari með KR þegar hann spilaði síðast hér á landi.vísir/daníel
Flytur ekki frá Svíþjóð næstu árin

Það er óvíst hvað tekur við hjá Jakobi Erni þegar samningurinn við Borås rennur út. Þá verður hann 35 ára en hann segir ljóst að fjölskyldan muni ekki flytjast búferlum á næstu árum þar sem kona hans verði í námi í Gautaborg næstu árin og að fjölskyldan hafi keypt þar framtíðarhúsnæði.

„Það fer allt eftir því hvernig mér líður þegar samningnum lýkur, bæði líkamlega og andlega. Ég hef mjög gaman að því að spila í dag og vonandi verður það þannig áfram. Mig langar til að spila lengur og vonandi fæ ég tækifæri til þess en það verður þá að miklum hluta undir því komið hvernig samning Borås getur boðið mér.“

Jakob spilaði síðast hér á landi með KR árið 2009 og hefur þáverandi liðsfélagi hans, Jón Arnór Stefánsson, sagt að hann vilji gjarnan koma aftur til Íslands og spila síðustu árin á ferlinum heima. Það er ólíklegt að það verði raunin hjá Jakobi.

„Það kitlar vissulega og ég fylgist vel með boltanum heima. Ég horfði mikið á Körfuboltakvöld [á Stöð 2 Sport] og alltaf þegar ég horfi á leiki heima fær maður þá tilfinningu að mann langi virkilega að vera með. Maður skyldi aldrei útiloka neitt, kannski gerist það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×