Innlent

Endurgreiðsla lág og aldraðir koma seint

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Ásta Óskarsdóttir, varaformaður Tannlæknafélags Íslands, segir að þegar vandinn sé orðinn mikill sé tilhneiging til að draga úr tennur frekar en að gera við þær.“
Ásta Óskarsdóttir, varaformaður Tannlæknafélags Íslands, segir að þegar vandinn sé orðinn mikill sé tilhneiging til að draga úr tennur frekar en að gera við þær.“ fréttablaðið/Vilhelm
Tannlausum eldri borgurum fækkar hratt og eldri borgurum fjölgar jafnt og þétt, að því er segir í frétt á vef Landlæknis. Varaformaður Tannlæknafélags Íslands, Ásta Óskarsdóttir, segir tannlækna nógu marga til að gera við tennur eldri borgara í framtíðinni. Ekki sé þó víst að allir geti nýtt sér þjónustuna. „Endurgreiðsla vegna tannlækninga fyrir 67 ára og eldri frá Sjúkratryggingum Íslands er lág og hún hefur lítið hækkað síðustu tvo áratugi,“ bendir Ásta á.

Hún segist vita um mörg tilfelli þess að gamalt fólk dragi það að fara til tannlæknis. „Þegar það kemur loksins er vandinn oft mikill og því tilhneiging til að draga tennur frekar en að gera við þær. Ekki eru alltaf smíðuð tanngervi í stað tapaðra tanna, sem að lokum bitnar á tyggingarhæfni og getur haft áhrif á næringu og lífsgæði.“

Ásta segir ástandið versna þegar heilsan bili og viðkomandi einstaklingur fari inn á elli- og hjúkrunarheimili. „Tannlæknar hafa mikinn áhuga á að ráða bót á þessum vanda. Tannlæknafélag Íslands er núna að vinna í því að skoða leiðir til að hjálpa þeim hópi eldri borgara sem ekki getur hjálpað sér sjálfur. Þetta eru með öðrum orðum þeir sem eru á leið inn á hjúkrunarheimili og einnig þeir sem eru nú þegar komnir þangað. Dæmi eru um að fólk komi með heilar tennur inn á hjúkrunarheimili en svo minnkar færni þess til að hugsa um sig sjálft. Eftir eitt ár hefur til dæmis tannheilsu þess hrakað svo mikið að draga þarf úr því tennur. Við erum að skoða hvernig tannlæknar geta komið að þjálfun og menntun starfsfólks til að aðstoða við tannhirðu gamla fólksins. Fyrsta skrefið til að bæta ástandið væri að sá sem fer inn á stofnun fái heildrænt mat hjá tannlækni og að einstaklingnum fylgi leiðbeiningar um munn- og tannhirðu, hvort sem það eru hans eigin tennur eða tann- eða munngervi.“

Amma er ekki tannlaus er yfirskrift málþings sem Tannlæknafélag Íslands heldur í byrjun nóvember. „Í kjölfarið fylgir ársþing tannlækna þar sem öldrunartannlækningum verður gert hátt undir höfði. Með samningi um gjaldfrjálsar tannlækningar barna er búið að koma því þannig að við eigum að skila börnunum okkar vel undirbúnum út í lífið. Næsta verk á dagskrá er að hugsa um þá sem hafa þverrandi getu til þess sjálfir. Eldri borgarar eru sá hópur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×