Bíó og sjónvarp

Emma Stone og Ryan Gosling talin gera atlögu að Óskarnum í La La Land

Birgir Olgeirsson skrifar
Emma Stone og Ryan Goslings í La La Land.
Emma Stone og Ryan Goslings í La La Land. Vísir/Imdb
Kvikmyndin La La Land hlaut áhorfendaverðlaunin á alþjóðakvikmyndahátíðinni í Toronto. Myndin hefur verið í sýningu á hátíðinni við rífandi undirtektir jafnt áhorfenda sem gagnrýnenda en það eru þau Emma Stone og Ryan Gosling sem fara með aðalhlutverk myndarinnar og eru talin líklega til að hreppa tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn.

Mynd segir frá djasspíanista, leikinn af Gosling, sem fellur fyrir ungri konu sem er að reyna fyrir sér sem leikkona í Los Angeles. Þau áttu bæði draum um að ná langt í sínu fagi sem hefur þó ekki gengið eftir þegar áhorfendur fá að kynnast þeim, hún sér fyrir sér með því að afhenda kvikmyndastjörnum Latté-bolla á milli þess sem hún reynir fyrir sér í áheyrnarprufum en hann sér fyrir sér með því að spila tónlist á subbulegum börum.

Þau fella saman hugi en ýmsar breytur í lífi þeirra eiga eftir að ógna sambandinu.

Leikstjóri myndarinnar er Damien Chazelle sem á að baki myndina Whiplash frá árinu 2014.

Myndin fer í almenna sýningu í desember næstkomandi en hægt er að sjá stiklu úr henni hér fyrir neðan: 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×