Lífið

Emilíana Torrini starfar með Kid Koala

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Tónlist fyrir ákveðnar aðstæður - Kid Koala er mikill aðdáandi Emiliönu.
Tónlist fyrir ákveðnar aðstæður - Kid Koala er mikill aðdáandi Emiliönu. MYND/ARNÞÓR
„Hann var búinn að reyna nokkrum sinnum, hann hefur alltaf haft samband á tímum sem hentuðu ekki,“ segir Emilíana Torrini, tónlistarkona sem hefur nú gefið út lagið Nightfall (Pale Blue) ásamt kanadíska skífuskenkjaranum og myndasöguhöfundinum Kid Koala.

Sá er meðal fremstu skífuskenkjara og plötusnúða heims. Hann er líka gríðarlega mikill aðdáandi Emiliönu en í viðtali við MusicVice frá 2012 sagðist hann vilja helst vinna með henni, aðspurður um hvaða tónlistarfólk hann vildi starfa með.

Lagið var gert sérstaklega fyrir kvikmyndina Men, Women & Children eftir Jason Reitman sem gerði meðal annars Thank You For Smoking. „Skemmtilegt að hafa eitthvað til að semja í kringum, hafa smá þemu,“ segir Emiliana en hún las handritið og skrifaði textann samkvæmt því.

Kid Koala þeytir skífum.Getty
Að sögn Emiliönu sömdu þau alls níu lög sem eru mjög ólík öllu því sem hún hefur gert áður. 

„Þetta verður allt önnur stemning. Þetta er í fyrsta skiptið sem ég bæði bý til melódíur við texta og syng annarra manna texta. Það er einfaldlega allt öðruvísi að haga því þannig.“ 

Ekki liggur enn fyrir hvað verði nákvæmlega gert upp úr þessum lögum. „Það verður ábyggilega gert eitthvað sérverkefni úr þessu.“










Fleiri fréttir

Sjá meira


×