Fótbolti

Emil sekúndubroti frá því að fá kúlu í andlitið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kolbeinn fagnar kasti sínu í gær en Emil stendur fyrir aftan Elías Sveinsson, fyrrum kúluvarpara.
Kolbeinn fagnar kasti sínu í gær en Emil stendur fyrir aftan Elías Sveinsson, fyrrum kúluvarpara. Mynd/Aðsend
Emil Hallfreðsson slapp með skrekkinn þegar strákarnir í íslenska landsliðinu brugðu á leik eftir æfingu liðsins á Laugardalsvelli í gær.

Ólympíufarinn Elías Sveinsson, fyrrum kúluvarpari, skoraði á strákana í kúluvarpskeppni í gær en Þorgrímur Þráinsson, sem á sæti í landsliðsnefnd KSÍ, sagði á greindi frá þessu á Facebook síðu sinni í gær.

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson tók áskorun Elíasar sem kastaði fyrstur. Aron Einar, sem er þekktur fyrir að grýta boltanum langt inn á markteig úr innköstum sínum, gerði sér lítið fyrir og kastaði talsvert lengra en Elías.

Kolbeinn Sigþórsson tók einnig í kúluna en fyrra kast misheppnaðist svo illa að kúlan hafnaði langt utan gryfjunnar og munaði aðeins sekúndubrotum að Emil Hallfreðsson hafi fengið kúluna í andlitið. Að sögn Þorgríms má þakka fyrir að Emil hafi verið „vakandi“ og náð að bægja sér undan á síðustu stundu.

Kolbeinn kastaði öðru sinni og heppnaðist það betur, eins og sjá má á viðbrögðum hans á meðfylgjandi mynd sem Þorgrímur tók. Vísir fékk leyfi hans til að endurbirta hana hér.

Þorgrímur ítrekar að allt hafi verið gert í léttu gríni og að menn hafi getað hlegið að öllu saman, líkt og algengt er á meðal strákanna.

Uppfært 9.10.

Rétt skal að taka það fram að Elías Sveinsson kastaði án atrennu en Aron Einar með atrennu.



Tengdar fréttir

Býr enn á hóteli

Kolbeinn Sigþórsson hefur enn ekki fundið netmöskvana í Frakklandi en er þó þegar kominn með rautt spjald. Honum líður vel í Nantes þrátt fyrir að búa enn á hótelherbergi með unga fjölskyldu sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×