Fótbolti

Emil fór meiddur af velli í markalausu jafntefli Udinese

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emil fór meiddur af velli eftir 13 mínútna leik.
Emil fór meiddur af velli eftir 13 mínútna leik. vísir/getty
Sex leikir fóru fram í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Þetta voru síðustu leikirnir fyrir jólafrí sem stendur til 7. janúar.

Emil Hallfreðsson var í byrjunarliði Udinese sem sótti Sampdoria heim. Emil lék þó aðeins í 13 mínútur en hann meiddist í upphafi leiks.

Leikurinn endaði með markalausu jafntefli. Udinese, sem er ósigrað í síðustu fjórum leikjum sínum, er í 10. sæti deildarinnar.

Roma minnkaði forskot toppliðs Juventus niður í fjögur stig með 3-1 sigri á Chievo á heimavelli. Juventus á þó leik til góða á Roma.

 

Jonathan de Guzman kom Chievo yfir á 37. mínútu en Stephan El Shaarawy jafnaði metin í uppbótartíma fyrri hálfleik.

Á 52. mínútu kom Edin Dzeko Roma í 2-1 með sínu þrettánda deildarmarki í vetur. Diego Perotti gulltryggði svo sigur Roma þegar hann skoraði þriðja mark liðsins úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

Napoli, sem er í 3. sætinu, mætti Fiorentina í ótrúlegum leik sem lyktaði með 3-3 jafntefli. Manolo Gabbiadini tryggði Napoli stig þegar hann skoraði úr vítaspyrnu þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Federico Bernardeschi skoraði tvö fyrstu mörk Fiorentina og lagði það þriðja upp fyrir Mauro Zarete. Lorenzo Insigne og Dries Mertens komu Napoli tvívegis yfir en liðið þurfti mark á elleftu stundu til að tryggja sér jafntefli eins og áður sagði.

Úrslit kvöldsins:

Sampdoria 0-0 Udinese

Roma 3-1 Chievo

Fiorentina 3-3 Napoli

Cagliari 4-3 Sassuolo

Palermo 1-1 Pescara

Torino 1-0 Genoa




Fleiri fréttir

Sjá meira


×