Fótbolti

Emil: Við viljum ekki gefa forseta Chievo pening

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Emil Hallfreðsson er fastamaður í liði Hellas Verona.
Emil Hallfreðsson er fastamaður í liði Hellas Verona. vísir/getty
Emil Hallfreðsson, landsliðsmaður í fótbolta, er orðin heill af meiðslunum sem héldu honum frá leikjunum gegn Hollandi og Kasakstan í síðasta mánuði.

Emil reif vöðva í læri en er kominn aftur á skrið og byrjaður að spila með Hellas Verona í Seríu A.

„Ég er orðinn góður og hef það frábært,“ sagði Emil hress og kátur við Vísi fyrir æfingu landsliðsins í dag.

„Það hefur gengið vel hjá mér og ég er ánægður með að vera kominn aftur í gang. Það er gott fyrir sjálfan mig, landsliðið og Verona.“

Emil Hallfreðsson og Luca Toni hafa báðir verið meiddir.vísir/getty
Eigum að vera betri í ár

Verona stóð sig mjög vel í deildinni á síðustu leiktíð og var í Evrópubaráttu fram í lokaumferðirnar. Nú er öldin önnur, en liðið er án sigurs í fyrstu sjö umferðunum og situr í fallsæti.

„Ég vil ekki vera að afsaka eitt eða neitt en það er ótrúlegt ástandið hjá okkur hvað varðar meiðsli. Við erum alltaf með 7-8 leikmenn meidda,“ segir Emil, en þeir sem eru meiddir eru engir smá kallar.

Rafael Marquéz, Luca Toni, Giampaolo Pazzini og ég erum til dæmis allir búnir að vera meiddur, þessir helstu,“ segir Emil og brosir.

„Við höfum ekki spilað með framherja heldur í síðustu tveimur leikjum. Við erum með kantmenn frammi og það er ástæða þess að við höfum ekki náð okkur á strik.“

Stigasöfnunin við upphaf nýrrar leiktíðar eru mikil vonbrigði fyrir Verona sem styrkti liðið og sótti reynslubolta eins og Rafael Marquéz sem var lykilmaður í liði Barcelona um árabil.

„Að mínu mati eigum við að vera betri í ár en í fyrra. Við erum með betra lið. Þessi meiðsli eru bara að fara illa með okkur því við getum aldrei stillt upp okkar sterkasta liði,“ segir Emil, en stendur þá ekki til að reka þjálfarann sem virðist alltaf lausnin á Ítalíu?

„Nei, sem betur fer ekki. Hann er búinn að vera þarna í fimm ár og það sýna allir ástandinu skilning. Það er ekki hægt að kenna þjálfaranum um gengið þegar 7-8 menn eru alltaf meiddir.“



Emil á ferðinni gegn Ítalíumeisturum Juventus.vísir/getty
Rígurinn mikill

Emil var í byrjunarliðinu um síðustu helgi þegar Hellas Verona mætti Chievo Verona í borgarslag, en hatrið á milli liðanna er töluvert.

„Þetta er stór nágrannaslagur. Heiðurinn er í húfi og það er rosalegur rígur á mill liðanna,“ segir Emil, en liðin deila heimavellinum Stadio Marc'Antonio Bentegodi

„Það mæta um 20 þúsund manns á leikina okkar en bara 5-7 þúsund hjá þeim. Leikurinn um helgina var þeirra heimaleikur og ákváðu stuðningsmenn Hellas að mæta ekki margir hverjir því þeir vilja ekki styðja forseta Chievo,“ segir Emil.

„Það voru ekki nema 5-6 þúsund stuðningsmenn frá okkur, en þegar við eigum heimaleikinn gegn Chievo er alltaf troðfullt. Við viljum bara ekki gefa forseta Chievo pening. Við stuðningsmenn Hellas lítum á Chievo eins og það sé ekki til,“ segir Emil Hallfreðsson.


Tengdar fréttir

Alfreð: Reynir á það hversu miklir atvinnumenn við erum

Alfreð Finnbogason segir að leikmenn íslenska landsliðins ætli sér sex stig í leikjunum tveimur sem eru framundan þrátt fyrir að sætið á EM sé í höfn. Hann vonast til þess að fá tækifæri í leikjunum en hann ræddi einnig stöðu sína hjá Olympiakos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×