Handbolti

EM 2020 gæti farið fram í þremur löndum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nikola Karabatic í leik með franska landsliðinu í handbolta.
Nikola Karabatic í leik með franska landsliðinu í handbolta. Vísir/AFP
Ársþing Handknattleikssambands Evrópu hefst í Dublin á Írlandi á morgun og er líklegt að nokkrar lykilákvarðanir verði teknar um framtíð Evrópumót landsliða.

Enn er áætlað að halda mótið á tveggja ára fresti en nú liggur fyrir tillaga frá stjórn sambandsins að fjölga þátttökuþjóðum í lokakeppninni úr sextán liðum í 24 frá og með keppninni árið 2022.

Hins vegar kemur jafnvel til greina að fjölga strax árið 2020 þar sem að þrjú lönd - Austurríki, Svíþjóð og Noregur - hafa lagt fram sameiginlegt tilboð um að halda keppnina fyrir 24 lönd. Ekkert annað land hefur sótt um að halda keppnina.

Samkvæmt tilboðsgögnum væri riðlunum sex skipt á milli landanna þriggja og að spilað yrði í Vín og Graz í Austurríki, Þrándheimi og Ósló í Noregi og Malmö og Gautaborg í Svíþjóð. Milliriðlarnir færu fram í Austurríki og Svíþjóð og úrslitin í Tele 2-höllinni í Stokkhólmi sem tekur 20 þúsund manns í sæti.

Á þinginu verður einnig ákveðið hvar næstu EM karla og kvenna fara fram árin 2018 og 2020. Króatía hefur sótt um EM karla 2018 og Frakkland um kvennamótið sama ár. Þá liggur fyrir sameiginlegt tilboð frá Noregi og Danmörku um að halda EM kvenna árið 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×