Körfubolti

Elvar með fimm stig á lokamínútunni í sigri Barry | Lovísa góð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson.
Elvar Már Friðriksson. Mynd/Samsett/Himasíður Barry og Marist
Elvar Már Friðriksson og félegar í Barry-háskólaliðinu unnu Florida Southern í bandaríska háskólakörfuboltanum í nótt en hann var ekki eini Íslendingurinn sem fagnaði sigri. Lovísa Henningsdóttir hjálpaði einnig sínu liði að vinna góðan sigur.

Elvar Már Friðriksson var með 19 stig og 6 stoðsendingar í góðum útisigri en hann hitti úr 4 af 7 þriggja stiga skotum sínum og tapaði bara einum bolta á þeim 37 mínútum sem hann spilaði. Hann var einnig með 4 fráköst og 2 stolna bolta.

Elvar var næststigahæstur og aðeins einn leikmaður liðsins gaf fleiri stoðsendingar en hann.

Elvar skoraði líka fimm stig, þrist og tvö víti, á lokamínútu leiksins þegar Barry-liðið landaði sigrinum.  

Barry-skólaliðið hefur unnið sjö af fyrstu átta leikjum sínum á leiktíðinni en eina tapið kom í framlengingu um síðustu helgi. Elvar Már er með 17,9 stig og 8,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Lovísa Henningsdóttir átti fínan leik með Marist-háskólaliðnu þegar það vann 76-57 sigur á Boston University.

Lovísa var næststigahæst með 13 stig en hún hitti úr 3 af 6 þriggja stiga skotum sínum og var einnig með 5 fráköst, 1 stoðsendingu, 1 stolinn bolta og 1 varið skot.

Marist-liðið hefur unnið 3 af 10 leikjum sínum á tímabilinu og Lovísa er með 7,4 stig og 4,7 fráköst að meðaltali en hún er einnig efst í stolnum boltum (1,1 í leik) og vörðum skotum í liðinu (1,4 í leik).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×