Sport

Elsa og Broddi í undanúrslit á HM öldunga

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Mynd/Badmintonsamband Íslands
Elsa Nielsen og Broddi Kristjánsson komust í undanúrslit á HM öldunga í badminton í dag en mótið fer fram í Helsingborg í Svíþjóð. Broddi keppti einnig í tvíliðaleik í 8-liða úrslitum í dag ásamt Þorsteini Páli Hængssyni en þeir féllu úr leik í dag.

Elsa mætti í átta manna úrslitum í flokki 40 Michaela Mayer frá Þýskalandi og fór Elsa létt með þennan leik og leiddi fyrri lotuna með yfirburðum 21-10. Það sama var upp á teningum í seinni lotunni, Elsa stjórnaði henni sömuleiðis og vann hana örugglega 21-13.

Elsa mætir í undanúrslitum Pernillie Strøm frá Danmörku en hún sló út Reni Hassan frá Búlgaríu sem var raðað númer tvö inn í greinina.

Þá keppti Broddi einnig í átta manna úrslitum í flokki 50 en hann mætti Geir Olve Storvik frá Noregi. Broddi leiddi leikinn allan tímann og vann örugglega 21-13 og 21-18. Með því er hann kominn í undanúrslit sem eru á morgun þar sem hann mætir mætir hann Wen-Sung Chang frá Tævan sem er raðað númer tvö inn í greinina.

Broddi og Þorsteinn Páll mættu svo í tvíliðaleik í flokki 50 í átta liða úrslitum Morten Christensen og Martin Qvist Olesen frá Danmörku en þeim er raðað númer eitt inn í greinina.

Á brattann var því að sækja hjá Brodda og Þorsteini sem töpuðu fyrstu lotunni 13-21 og þeirri seinni 14-21. Þeir hafa því lokið keppni í tvíliðaleik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×