Sport

Elsa og Broddi hafa lokið keppni á HM öldunga

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Fóru alla leið í undanúrslit en mótherjinn reyndist of sterkur.
Fóru alla leið í undanúrslit en mótherjinn reyndist of sterkur. Mynd/Badmintonsambandið
Elsa Nielen og Broddi Kristjánsson duttu bæði út í undanúrslitum á HM öldunga í badminton sem fer fram í Helsingborg þessa dagana.

Þau geta þó verið stolt af árangri sínum á mótinu en ásamt því að komast í undanúrslit komst Broddi í 8-liða úrslit í tvíliðaleik með Þorsteini Páli Hængssyni.

Elsa mætti í undanúrslitum Pernillie Strøm frá Danmörku í aldursflokki 40 en Pernillie hafði betur í tveimur lotum. Lauk fyrri lotunni með naumum sigri Pernillie 21-19 en sú danska hafði töluverða yfirburði í seinni lotunni sem hún sigraði 21-14.

Í flokki 50 í karlaflokki mætti Broddi tævanska spilaranum Wen-Sung Chang í undanúrslitum en hann var í öðru sæti á styrkleikalistanum fyrir mótið.

Broddi leiddi framan af í fyrstu lotunni en tapaði henni á endanum 15-21. Chang leiddi hinsvegar frá byrjun í seinni lotunni og vann hana að lokum 21-12.

Hafa þau því bæði lokið keppni en þau geta verið stolt af því að hafa komist í undanúrslitin á þessu geysisterka móti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×