Fótbolti

Elmar tapaði fullt af peningum í spilavíti: „Þjálfarinn pantaði bjór handa mér“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Theodór Elmar Bjarnason, landsliðsmaður í fótbolta og EM-fari, segir hreinskilnislega frá fyrstu skrefum sínum í atvinnumennskunni í aukaefni myndarinnar Jökullinn Loga eftir Sölva Tryggvason, en DVD-diskur með myndinni er kominn út.

Elmar var um tíma einn efnilegasti leikmaður Íslands en hann byrjaði 16 ára að spila fyrir meistaraflokk KR. Ári síðar gerðist hann atvinnumaður þegar skoska stórveldið Celtic samdi við hann, en Elmar var á mála hjá Glasgow-liðinu í fjögur ár og spilaði einn deildarleik.

„Maður fær í fyrsta skipti einhvern pening í vasann og veit ekki alveg hvernig maður á að ráða við það,“ segir Elmar sem viðurkennir að hafa ekki farið vel með peningana sína. „Svo var þarna spilavíti við hliðina á íbúðinni sem ég var í, en þar eyddi ég miklum tíma og tapaði fullt af peningum.“

Elmar í búningi Celtic.
Elmar segir frá því að drykkjumenningin hafi verið mikil í breska boltanum á þeim tíma sem hann var þarna frá 2004-2008 en hann fékk hreinlega sekt ef hann mætti ekki á djamm með liðsfélögunum.

„Ég man á fyrsta liðsdjamminu mínu ætlaði ég bara að kaupa mér kók en þjálfarinn sagði mér að gleyma því og pantaði bjór handa mér,“ segir hann.

„Ég á fullt af skemmtilegum minningum en maður hefði kannski átt að fórna einhverju af þessu og einbeita sér meira að fótboltanum,“ segir Theodór Elmar Bjarnason.

Brot úr aukaefni myndarinnar Jökullinn Loga má sjá hér að ofan en þar ræða strákarnir okkar um fyrstu skrefin sín í atvinnumennsku. Jökullinn Logar er mynd Sölva Tryggvasonar um ferðalag strákanna okkar á EM í Frakklandi en hún er nú komin út á DVD með tveimur klukkustundum af aukaefni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×