Viðskipti innlent

Ellý Alda nýr skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu

atli ísleifsson skrifar
Ellý Alda Þorsteinsdóttir.
Ellý Alda Þorsteinsdóttir. velferðarráðuneytið
Ellý Alda Þorsteinsdóttir hefur verið skipuð skrifstofustjóri á skrifstofu félagsþjónustu í velferðarráðuneytinu.

Velferðarráðuneytið greinir frá því að ráðgefandi hæfnisnefnd hafi metið Ellý Öldu hæfasta úr hópi 21 umsækjanda. Hún tekur við starfinu af Bolla Þór Bollasyni sem gegnt starfi skrifstofustjóra í velferðarráðuneytinu frá stofnun þess 1. janúar 2011.

„Ellý Alda lauk starfsréttindanámi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands árið 1988 og meistaranámi í stjórnun frá Háskólanum í Kent árið 1991. Hún hefur allan starfsaldur sinn starfað við málefni félagsþjónustu hjá Reykjavíkurborg þar sem hún hóf störf árið 1988 sem félagsráðgjafi í stuðnings- og barnaverndarmálum á Félagsmálastofnun. Frá árinu 2014 hefur Ellý Alda verið skrifstofustjóri á skrifstofu sviðsstjóra á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, en áður var hún skrifstofustjóri velferðarþjónustu (2005–2013), framkvæmdastjóri ráðgjafarsviðs (2000–2005) og yfirmaður fjölskyldudeildar sem og framkvæmdastjóri Barnaverndarnefndar Reykjavíkur (1995–2000), forstöðumaður hverfaskrifstofu (1991–1995) og deildarstjóri meðferðardeildar þar sem hún sinnti stuðnings- og barnaverndarmálum (1990 –1991).

Í mati hæfnisnefndar segir að það sé afgerandi styrkleiki Ellýjar Öldu hve djúpa og breiða þekkingu hún hefur á þeim málaflokkum sem falla undir skrifstofu félagsþjónustu í velferðarráðuneytinu. Starfsferill hennar sé glæsilegur og einkennist af stigvaxandi stjórnunarábyrgð sem spanni samtals 26 ár. Hún hafi mikla og fjölbreytta þekkingu og reynslu af opinberri stjórnsýslu og sterka faglega sýn á málefni félagsþjónustu,“ segir í fréttinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×