Erlent

Eiginkona og barn leiðtoga Hamas drepin í sprengingu

Atli Ísleifsson skrifar
Ættingjar sjö mánaða gamals drengs frá Palestínu halda á líki hans.
Ættingjar sjö mánaða gamals drengs frá Palestínu halda á líki hans. Vísir/Getty
Eiginkona og tveggja ára dóttir Mohammed Deif, eins leiðtoga Hamas, fórust í loftárás Ísraelshers á Gasa í gær.

Að minnsta kosti nítján Palestínumenn hafa látið lífið í loftárásum Ísraela sem hófust á ný síðdegis í gær eftir að vopnahlé sem samið hafði verið um fór út um þúfur. Rúmlega hundrað eru sárir.

Fréttaskýrandi BBC segir líklegt að ætlunin hafi verið að drepa Deif sjálfan í árásinni. Talsmaður Hamas sagði Deif hins vegar enn vera á lífi og stjórni áfram hernaðaraðgerðum samtakanna.

Ísraelar fullyrða að um 137 eldflaugum hafi verið skotið í átt að Ísrael frá því á þriðjudag en ekkert tjón virðist þó hafa hlotist af þeim. Ísraelsher hafi hins vegar framkvæmt 92 loftárásir á ákveðin skotmörk á Gasa.

Friðarviðræðunum sem staðið hafa yfir í Kaíró í Egyptalandi hefur nú verið slitið og samninganefndirnar sendar til síns heima. Deiluaðilar kenna hvor annarri um að viðræðurnar hafi farið út um þúfur.

Egypsk stjórnvöld harma það mjög að tíu daga vopnahlé sé nú á enda, en að áfram verði unnið að því að tryggja varanlegan frið.

2.103 hafa látið lífið í árásum síðustu sex vikna.

Palestínumaður hleypur með slasaða stúlku á spítalann í Shifa á Gasasvæðinu.Vísir/AP

Tengdar fréttir

Vopnahlé framlengt á Gasa

Vopnahléið á Gasa var framlengt í gærkvöldi um einn sólarhring. Það hefði átt að renna út klukkan níu að íslenskum tíma í gærkvöld en menn sættust á að framlengja það til þess að geta rætt málin í sólarhring til viðbótar.

Viðræður og vopnahlé út um þúfur

Ísraelar gengu út af fundum og byrjuðu að varpa sprengjum á Gasa í gær, strax og sprengjuflaugum var skotið yfir til Ísraels.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×