Handbolti

Ellefti sigurinn í ellefu leikjum hjá Aroni Pálmars og félögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson í leik með Veszprém í vetur.
Aron Pálmarsson í leik með Veszprém í vetur. vísir/epa
Aron Pálmarsson og félagar hans í Veszprém héldu áfram sigurgöngu sinni í ungversku deildinni í handbolta í dag.

Veszprém sótti þá tvö stig til Balatonfüred þar sem liðið vann ellefu marka sigur á heimamönnum, 31-20.

Íslenski landsliðsmaðurinn Aron Pálmarsson skoraði fjögur mörk í leiknum en Slóveninn Gasper Marguc skoraði níu mörk og var markahæstur hjá Veszprém.

Aron var rólegur framan af leik en hann kom í 9-7 með sínu fyrsta marki í leiknum. Aron kom svo sínum mönnum í Veszprém einnig í 11-9, 17-12 og 20-16.

Veszprém var með þriggja marka forystu í hálfleik, 14-11, og setti í annan gír í seinni hálfleiknum og keyrði yfir mótherja sína.

Það er nóg að gera hjá Veszprém-liðinu sem er líka að spila í SEHA-deildinni og Meistaradeildinni. Þessir leikir liðsins í deildinni í heima hafa hinsvegar ekki verið að skapa þeim mikil vandræði.

Veszprém hefur unnið alla ellefu leiki sína í deildinni og er samtals 117 mörk í plús. Veszprém hefur því unnið leiki sína með 10,6 marka mun að meðaltali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×