Innlent

Eliza afhjúpaði Bleiku slaufuna

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Eliza Reid forsetafrú í Kringlunni í dag
Eliza Reid forsetafrú í Kringlunni í dag Vísir/Vilhelm
Eliza Reid forsetafrú afhjúpaði Bleiku slaufuna í Kringlunni í dag. Bleika slaufan í ár er hönnuð af Lovísu Halldórsdóttur og Unni Eir Björnsdóttur gullsmiðum. Þær segja slaufuna tákna stuðningsnetið sem er mikilvægast þeim konum sem greinast með krabbamein – fjölskylduna og samfélagið. 

Bleika slaufan 2016Vísir/Bleika slaufan
Yfirskrift átaksins í ár er „Fyrir mömmu” og er fólk hvatt til að kaupa slaufuna fyrir mömmu sína og með því sýna þeim þakklæti fyrir allt sem þær hafa gert fyrir börnin sín og að styðja þær, og allar konur, í baráttunni við brjóstakrabbamein.

Bleika slaufan er árlegt átaksverkefni Krabbameinsfélagsins. Allur ágóði af sölu slaufunnar í ár rennur til kaupa á endurnýjuðum tækjabúnaði sem er sérstaklega ætlaður til leitar að brjóstakrabbameini. Hér á land greinist kona með brjóstakrabbamein á um 40 klukkustunda fresti. Talið er að skipuleg leit að brjóstakrabbameini lækki dánartíðni um allt að 40 prósent.

Í kvöld verður svo Bleika boðið haldið kl. 20:00 á 1.hæð í Kringlunni á góðgerðardegi Kringlunnar „Af öllu hjarta“ þar sem verslanir gefa 5% af allri veltu dagsins til verkefnisins og selja slaufur auk þess að bjóða margvíslega afslætti til viðskiptavina. Kringlan er opin 10-22 í tilefni dagsins. Fjöldi listamanna mun skemmta gestum og gangandi, þar á meðal Ari Eldjárn, krakkar úr Bláa hnettinum, Gréta Salóme og Glowie.

Eliza Reid forsetafrú spjallar við börn sem mála „mynd fyrir mömmu“ með Tolla í dag.Mynd/Bleika slaufan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×