Sport

Elin Holst byrjaði keppnisárið með stæl

Telma Tómasson skrifar
Elin Holst brosti sínu breiðasta eftir sætan sigur í gær.
Elin Holst brosti sínu breiðasta eftir sætan sigur í gær. Stöð 2 Sport
Elin Holst byrjaði keppnisárið í hestaíþróttum með stæl með öruggum sigri í fjórgangi í Meistaradeild Cintamani í hestaíþróttum á Frama frá Ketilsstöðum í gærkvöldi. Elin og Frami áttu frábært keppnisár í fyrra, en eru enn að sækja í sig veðrið eins og glöggt mátti sjá á sýningu þeirra, hesturinn í mjög góðu keppnisformi, vel þjálfaður, þjáll og algerlega undir stjórn hjá knapa sínum.

Elin Holst er norskættuð, en hefur búið á Íslandi í átta ár. Hún starfar hjá Gangmyllunni og keppir einnig fyrir lið undir því merki í Meistaradeild Cintamani í hestaíþróttum. Sá góði árangur náðist hjá Gangmyllunni að allir þrír liðsmenn þess komust í A-úrslit í fjórgangskeppninni, með einstaklega vel undirbúin og þjálfuð hross.

Elin var spurð hvort sigursætið hefði verið óvænt. „Ég vissi nú að þetta gæti gerst, en það eru svo margir góðir að maður veit aldrei,“ sagði Elin Holst, þegar sigurinn var í höfn, og kvaðst jafnframt mjög sátt.

Hér má sjá myndband af Elinu Holst og Frama frá Ketilsstöðum í forkeppni í fjórgangi Meistaradeildar Cintamani í hestaíþróttum og viðtal við hana þegar úrslitin lágu fyrir en keppnin var í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Niðurstöður A-úrslita voru eftirfarandi:

1. Elin Holst - Frami frá Ketilsstöðum - Gangmyllan - 8.07

2. Bergur Jónsson - Katla frá Ketilsstöðum - Gangmyllan - 7.60

3. Jakob S. Sigurðsson - Júlía frá Hamarsey - Top Reiter - 7.33

4. Guðm. F. Björgvinsson - Straumur frá Feti - Hestvit/Árbakki/Svarthöfði - 7.33

5. Freyja Amble Gíslad. - Álfastjárna frá S-Gegnishólum - Gangmyllan - 7.30

6. Sigurður V. Matthíass. - Arður frá Efri-Þverá - Ganghestar/Margrétarhof - 7.10

7. Árni Björn Pálsson - Flaumur frá Sólvangi - Top Reiter - 6.77




Fleiri fréttir

Sjá meira


×