Sport

Elin hafði sætaskipti

Telma Tómason skrifar
Elin Holst komst aftur á pall í Meistaradeild Cintamani í hestaíþróttum í gærkvöldi og tryggði sér annað sætið í keppni í gæðingafimi sem fram fór í Samskipahöllinni í Kópavogi með hest sinn Frama frá Ketilsstöðum.

Elin og Frami unnu fjórgangskeppnina sem fram fór fyrir tveimur vikum og hirti þá efsta sætið af Bergi Jónssyni og Kötlu frá Ketilsstöðum. Þau Elin og Bergur höfðu sætaskipti nú í gæðingafiminni, Bergur tók gullið og Elin silfur.

Elinu urðu á mistök í forkeppninni þegar hún hleypti Frama, en hann krossaði á stökkinu. Þetta varð henni dýrkeypt, en samt sem áður tryggði hún sér sæti í úrslitum sem aðeins fimm bestu knapar af tuttugogfjórum komust í.  Útfærsla sýningarinnar var nákvæmari og nokkuð kraftmeiri í úrslitunum, sem skilaði sér í hærri einkunn og öðru sæti.

„Þetta var betra, eins og ég ætlaði að hafa þetta,“ sagði Elin í viðtali þegar silfrið var fast í hendi.

Elin er efst og jöfn að stigum Bergi Jónssyni í einstaklingskeppninni, en bæði eru með 22 stig eftir fyrstu tvær keppnisgreinarnar í mótaröðinni.

Meðfylgjandi er myndband af Elinu Holst og Frama frá Ketilsstöðum í A-úrslitum, en sýnt var frá keppninni í beinni útsendingu á Stöð 2 sport. 

Niðurstöður A-úrslita í gæðingafimi 2017 í MD Cintamani í hestaíþróttum:

1. Bergur Jónsson - Katla frá Ketilsstöðum - 8.63

2. Elin Holst - Frami frá Ketilsstöðum - 7.84

3. Jakob Svavar Sigurðsson - Gloría frá Skúfslæk - 7.74

4. Árni Björn Pálsson - Skíma frá Kvistum - 7.71

5. Sylvía Sigurbjörnsdóttir - Héðinn Skúli frá Oddhóli - 7.61


Tengdar fréttir

Mikið keppnisskap skilaði þriðja sætinu

Jakob Svavar Sigurðsson tryggði sér þriðja sætið í gæðingafimi í Meistaradeild Cintamani í hestaíþróttum á fimmtudagskvöld með Gloríu frá Skúfslæk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×