Innlent

Eldur kom upp í bíl á Snæfellsnesi

Bjarki Ármannsson skrifar
Slökkviliðsmenn ráða niðurlögum eldsins.
Slökkviliðsmenn ráða niðurlögum eldsins. Vísir/Þröstur Albertsson
Slökkviliðið í Snæfellsbæ var kallað út á ellefta tímanum í morgun vegna þess að eldur kom upp í bíl á afleggjaranum að Búðum á Snæfellsnesi. Svanur Tómasson slökkviliðsstjóri segir að engu hefði mátt muna að bíllinn hefði hreinlega brunnið.

„Við vitum ekki hvað skeði. Það kom mikill reykur frá bílnum og kviknaði í einangrun undir honum,“ segir Svanur. Að sögn hans varð ökumaður var við reykinn, stöðvaði bílinn og steig út. Þá var mikil glóð undir honum.

„Þetta bara slapp fyrir horn, annars hefði bíllinn brunnið. Hann var það langt frá slökkviliðsstöðinni að bíllinn hefði verið alelda þegar við kæmum að honum.“

Engum var meint af og er bíllinn nú kominn til Ólafsvíkur.

„Fyrst að útköllin þurfa að vera, þá eru þetta skemmtilegustu útköllin,“ segir Svanur. „Þar sem allt gengur vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×