Lífið

Eldsvoðinn á Þingeyri: Erfitt að horfast í augu við minningarnar

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Anton Líni bjargaðist úr brunanum.
Anton Líni bjargaðist úr brunanum. Fréttablaðið/Auðunn
Fyrir rúmum fjórtán árum varð eldsvoði á Þingeyri þar sem ung hjón létust ásamt eins og hálfs árs gömlum syni sínum. Þau Hreiðar Snær Línason og Ingibjörg Edda Guðmundsdóttir voru aðeins 22 og 20 ára þegar þau létust í brunanum ásamt syni sínum, Leon Erni. Eldri sonur þeirra hjóna, Anton Líni, sem þá var 3 og hálfs árs, bjargaðist.

„Ég man aðeins eftir þessu en það trúa því ekki allir vegna þess að ég var svo ungur þegar þetta gerðist,“ segir Anton Líni Hreiðarsson. Hann er núna á átjánda ári og stundar nám í vélstjórn við Verkmenntaskólann á Akureyri. Hann er nýlega fluttur norður en bjó áfram að mestu leyti á Þingeyri eftir brunann.

Anton Líni hefur hugsað mikið um þessa örlagaríku nótt sem fjölskylda hans var hrifsuð frá honum.

Veit nokkurn veginn hvað gerðist

„Ég man ég vaknaði um nóttina og sá eld. Ég hljóp og vakti pabba. Síðan man ég eftir að það var sagt: hvar er bróðir þinn? En ég man lítið eftir það,“ segir Anton. Faðir hans hafði þá hlaupið með hann út en missti hann á leiðinni. Amma hans, sem bjó á efri hæðinni, fór inn og bjargaði Antoni út.

„Ég veit nokkurn veginn hvað gerðist. Pabbi hljóp með mig fram en missti mig á ganginum. Hann fór út og þá var amma komin fyrir utan. Hún fór inn þar sem allt var fullt af reyk og ætlaði að fara snúa við því hún fann mig ekki en þá heyrði hún í mér. Pabbi hljóp þá aftur inn til að bjarga hinum.“

Faðir hans komst ekki aftur út lifandi. Hjónin ungu dóu bæði í eldsvoðanum og yngri sonur þeirra.

Fyrsta árið eftir brunann bjó Anton hjá móðurforeldrum sínum. Hann flutti svo til föðurforeldra sinna, aftur á Þingeyri, í sama hús og bruninn hafði átt sér stað. Þar bjó þar til hann fór í Menntaskólann á Ísafirði þegar hann var 16 ára gamall.

Bræðurnir saman, Anton Líni og Leon Örn.
Horfðist í augu við minningarnar

„Ég hef oft hugsað með bróður minn að ég hefði viljað gera eitthvað til þess að bjarga honum þó ég hafi ekki haft vit til þess. Það koma upp alls konar svona hugsanir,“ segir Anton sem segist þó gera sér fulla grein fyrir því að hann hefði ekki getað gert neitt.

„Í raun og veru hef ég alltaf verið mjög lokaður með þetta. Ég byrjaði ekkert að tala um þetta fyrr en fyrir svona ári síðan. Þá var ég búinn að vera dálítið langt niðri og brotnaði pínu saman. Ég bjó þá á heimavistinni í Menntaskólanum á Ísafirði. Ég hafði lokað mig svolítið af. Ég hafði alltaf haft svo mikið að gera en þarna var lítið að gera og þá fer maður að vorkenna sér. Ég ákvað þess vegna að fara byggja mig upp og gera eitthvað af viti. Ég horfðist í augu við þessa minningar.“

Hann segir það hafa verið langt því frá auðvelt að fara í gegnum þetta. Lesa fréttir af brunanum og minningargreinar um foreldra sína. „Það kom upp rosaleg reiði og sorg. Það rifjaðist upp hellingur af minningum, margt sem mér hafði verið sagt en ég hafði lokað á þetta allt. Ég var bara búinn að reyna gleyma þessu öllu. Ég vissi samtað  ef ég myndi ekki gera neitt þá myndi ég aldrei ná að lifa með þessu. Ég hugsa að mér hafi alltaf verið svolítið hlíft. Það voru allir glaðir þegar ég fór að tala um þetta. Þau voru svo frábært fólk,“ segir hann.

Þau Hreiðar Snær og Ingibjörg Edda voru aðeins 22 og 20 ára þegar þau létust. Þau giftu sig sumarið á undan og Gunnhildur segir brúðkaupsnóttina lýsa þeim vel. „Þau eyddu henni í tjaldi sem brúðguminn hafði tjaldað áður. Þau sóttu svo strákana um morguninn og fóru með þá í útilegu. Þau voru mikið fjölskyldufólk. Alveg yndisleg og frábær.“
Tónelskur eins og foreldrarnir 

Foreldrar Antons Lína voru afar tónelsk og hann hefur erft það frá þeim. Móðir hans, Ingibjörg Edda, hafði lokið námi á fyrsta ári í Tónlistarskóla Ísafjarðar og hafði hafið nám á öðru ári. Hreiðar var í píanónámi þegar hann lést en hafði einnig leikið á orgel, gítar og trompet. Anton segir tónlistina hafa hjálpað sér mikið við að læra sætta sig við minningarnar en í gegnum hana fái hann líka ákveðna tengingu við foreldra sína. „Tónlistin hefur alltaf verið í mér og ég syng alltaf eða spila þegar mér líður illa. Mér fannst gott að gera þetta upp í þessu lagi. Þetta er svona mín leið að reyna að tala um þetta og gera eitthvað. Pabbi var mjög góður á gítar og þau sungu bæði vel.“

Anton býr nú á Akureyri hjá móðurömmu sinni og stefnir á að ná lengra í tónlistinni. Hann hefur verið að vinna lög með vinum sínum og saman kalla þeir sig Aquariion.

Eftir brunann var safnað fyrir Antoni og fjölmargir lögðu söfnuninni lið á ýmsan hátt. „Ég er virkilega þakklátur fyrir hvað ég fékk mikla hjálp á þessum tíma. Það var fólk úti um allt land að hafa samband. Mér er mjög minnistætt þegar ég var yngri og var að æfa fótbolta. Þá kemur strákur með 50 krónur og spyr hvort ég hafi ekki misst fjölskylduna mína. Ég segi jú og þá segist hann vilja gefa mér 50 krónurnar sínar. Það var ýmislegt svona sem maður fann.“

Hann segir líka mikilvægt að minna fólk á að vera þakklátt fyrir það sem það á. „Þetta varð líka til þess að ég fór að hugsa hvað fólk áttar sig ekki á hvað fjölskyldan er dýrmæt og kann ekki endilega að meta það sem það hefur. Fólki finnst þetta sjálfsagður hlutur en það er það ekki.“

Í spilaranum hér að neðan má heyra frumsamið lag Antons um foreldra sína.

FrumsamiðNjótiðSöknuður

Posted by Anton on 16. febrúar 2016
Kraftaverk að hafa fundið hann

Gunnhildur Elíasdóttir er föðuramma Antons Lína. Hún er þakklát fyrir þann ómetanlega stuðning sem barst alls staðar frá eftir eldsvoðann.

Gunnhildur, amma Antons, segist ekki geta útskýrt það hvernig maður fari af því að halda áfram lífinu eftir slíkan atburð.
„Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að bjarga honum,“ segir Gunnhildur Elíasdóttir föðuramma Antons Lína. Gunnhildur bjó á efri hæð hússins ásamt þáverandi eiginmanni sínum og dóttur. Þau vöknuðu við læti á neðri hæðinni og sáu fljótt hvað var í gangi. „Við vöknuðum við öskur og hróp, það var líklega Anton Líni sem náði að vekja pabba sinn. Hin voru þá sennilega dáin í reyknum. Það var talið að þau hefðu aldrei vitað hvað gerðist,“ segir Gunnhildur.

Hún hljóp út á nærfötunum niður á neðri hæðina þar sem ekki var innangengt af efri hæðinni. Þá lá Hreiðar aðframkominn við útidyrnar. „Pabbi hans komst með hann hálfa leið út. Hann komst út en týndi Antoni á leiðinni í kófinu. Þegar ég kem að segir pabbi hans strax: Anton Líni er inni. Ég var ekkert að hugsa það, auðvitað voru þau öll inni. Ég fór inn en ætlaði að fara snúa við út af reyk og það var allt svart. Þá heyrði ég pínulítinn grát í honum og það var kraftaverk ég skyldi finna hann því ég sá ekki neitt.

Gunnhildur fór út með Anton Lína en þá hafði Hreiðar farið aftur inn til þess að reyna bjarga eiginkonu sinni og yngri syni. Þau létust öll í brunanum.

Dagarnir á eftir brunann voru erfiðir. Nýr veruleiki blasti við og ekki var hægt að gefast upp, þau þurftu að vera til staðar fyrir Anton Lína. „Þetta var ekki auðvelt. Ég fór með honum að kveðja þau í síðasta skiptið og það voru átök á sálinni."

Þau fluttu úr húsinu meðan var verið að gera við skemmdirnar eftir brunann en fluttu aftur inn þremur mánuðum síðar. „Fólk var svolítið hissa á því en við sögðum alltaf að húsið hefði ekki gert okkur neitt.“

Gunnhildur segir það ekki hafa komið til greina að flytja frá Þingeyri. Þau fengu mikinn stuðning frá bæjarbúum en litla samfélagið var lamað af sorg. „Nokkrum dögum eftir slysið kom áfallateymi frá Landspítalanum. Sóknarpresturinn sem var hérna, Guðrún Edda Gunnarsdóttir og eiginmaður hennar, Einar Sigurbjörnsson, voru okkar stoð og stytta. Guðrún Edda skírði báða strákana og gifti þau hjónin. Hún er enn að veita mér áfallahjálp fjórtán árum síðar. Þetta var ómetanlegt. Hún kom stundum, vaskaði upp, tók til og sagði manni að borða,“ segir Gunnhildur þakklát.

„Maður fékk hjálp alls staðar að. Anton Líni fékk senda pakka og bréf. Þetta var ótrúlegt. Hann fékk send föt og dót frá ókunnugu fólki. Hann var að fá bréf þar sem mömmurnar voru að skrifa fyrir börnin sín sem höfðu tekið úr sparibauknum sínum og keypt eitthvað handa honum. Þetta var ótrúlega magnað og allur þessi fallegi stuðningur hjálpaði manni að standa í lappirnar,“ segir hún og rifjar upp eina sendinguna sem skipti hana afar miklu máli.



Gunnhildur og Anton Líni skömmu eftir eldsvoðann. Fréttablaðið/GVA
„Um tveimur árum eftir slysið þá fékk ég smá pakka í pósti. Það var vídeóspóla sem hafði verið tekið upp á. Það voru rétt í kringum tvær mínútur af Hreiðari að leika við strákana í læk við sumarbústað hérna vestur í Vatnsfirði í Flókalundi. Spólan kom frá fólki sem hafði verið í bústað við hliðina á þeim og þekkti þau ekki neitt. Þau tóku þetta óvart upp því það voru krakkar frá þeim að leika sér í læknum. Þetta sendi konan mér tveimur árum seinna. Það var mjög dýrmætt að fá þessa sendingu og maður skildi hvað svona litlir hlutir eru stórir í svona aðstæðum,“ segir hún.

Fyrst eftir atburðinn talaði Anton Líni mikið um foreldra sina og bróður. „Við fórum mikið í kirkjugarðinn. Við bjuggum við kirkjugarðshornið og hann var alltaf að færa brósa sínum eitthvað. Gefa honum nammi. Einu sinni fór ég með honum og þá var hann með bland í poka og vildi gefa brósa nammi. Svo segir hann: heyrðu nei amma, brósi vill ekki nammi, hann segir að ég megi eiga það og stakk molanum upp í sig,“ segir hún hlæjandi að minningunni. „Svo leit hann oft upp í himininn og sá stjörnurnar og þá voru það mamma og pabbi að fylgjast með honum.“

Eftir því sem Anton varð eldri talaði hann sífellt minna um atburðinn. „Ég held það sé í fyrsta skipti núna þegar hann samdi þetta lag sem hann er að tjá sig um þetta frá eigin brjósti. Mér finnst gott að maður var ekki að pressa á hann að tala um þetta heldur fékk þetta bara að fljóta þegar hans tími var kominn. Þetta er mikil reynsla sem enginn ætti að hafa á bakinu. Þó að þetta sé skelfilegt þá þroskar svona reynsla mann. Hann er að taka út þennan þroska núna,“ segir Gunnhildur.

Sjálf segist Gunnhildur ekki geta útskýrt það hvernig maður nái að halda áfram að lifa eftir svona hrikalegan atburð. „Ég veit það eiginlega ekki sjálf. Það einhvern veginn gerist, maður þarf að halda áfram. Ég á fjögur önnur börn og auðvitað er fullt af góðu fólki í kringum mann,“ segir hún. 

Anton notar tónlistina til að takast á við sárar minningar. Fréttablaðið/Auðunn
„Stuttu eftir þetta sat ég inni í eldhúsi heima og hugsaði að ég væri gjörsamlega að fara yfir um. Þetta væri of mikið. Ég spáði í því hvort ég ætti ekki bara að fara til læknis og fá einhverjar pillur, ég hafði ekki tekið eina einustu svefntöflu allt þetta ferli. Þá hugsaði ég með mér að ég væri komin í stórhættu ef ég færi að éta eitthvað svoleiðis en ákvað í staðinn að fara út í göngutúr. Það má eiginlega segja að ég sé búin að vera upp um fjöll og firnindi síðan. Ég hugsa stundum hvar ég væri í dag hefði ég valið hinn kostinn.“

Gunnhildur segir það líka mikilvægt að tala um hlutina. „Fyrir einhverjum áratugum þá talaði fólk ekki um svona hluti. Það talaði ekki um sorgina. Þá átti maður að þegja og harka af sér. Það hjálpar mikið að tala um hlutina. Sumir komast hins vegar aldrei í gegnum svona en ég blessunarlega tilheyri ekki þeim hópi. Ég á fjögur önnur börn á lífi. Það sem skipti líka miklu máli er að það var allt í sátt og samlyndi þegar þau dóu. Það var enginn í fýlu við neinn. Það skiptir gríðarlega miklu máli að eiga ekki neitt óuppgert. Auðvitað er það ekkert alltaf þannig en við vorum heppin þarna,“ segir Gunnhildur. „Auðvitað hefur þetta samt reynt gríðarlega á alla fjölskylduna eins og hún leggur sig. Að missa næstum heila fjölskyldu úr fjölskyldunni.“

Eftir brunann var sett í gang átak til þess að vekja fólk til umhugsunar um að setja upp reykskynjara á heimilum sínum.

„Það var mikil vakning eftir þetta varðandi reykskynjara. Það var ekki reykskynjari í íbúðinni. Það var gert mikið átak í þessum málum. Við vorum ófeimin við að segja frá því að þarna vantaði reykskynjara og hugsanlega hefði ekki farið svona illa ef það hefði verið. Þarna varð engu breytt en það kannski breytti fyrir einhverja eftir á. Og ég er alveg viss um að það hafi gert það. Þó það sé andskoti sárt að læra svona af reynslunni þá er alltaf eitthvað sem skilar sér. “






Fleiri fréttir

Sjá meira


×