Skoðun

Eldri borgarar gætu orðið af 5,3 milljörðum

Haukur Ingibergsson og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir skrifar
Velferðarnefnd Alþingis hefur nú til meðferðar frumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, um breytingar á almannatryggingum. Í kostnaðarmati með frumvarpinu er áætlað að útgjöld ríkissjóðs aukist um 5,3 milljarða árið 2017. Það merkir að heildargreiðslur til eldri borgara aukast um þá fjárhæð 2017.

Í almannatryggingafrumvarpinu eru umbótatillögur sem varða einföldun kerfisins með því að sameina grunnlífeyri, tekjutryggingu og framfærsluuppbót í einn ellilífeyri en framfærsluuppbótin, sem hefur verið með 100 prósent skerðingu gagnvart öllum öðrum tekjum, verður færð í flokk ellilífeyris þar sem skerðingin verður 45 prósent af öllum tekjum. Heimilisuppbót verður áfram sérstakur bótaflokkur fyrir þá sem búa einir.

Mælt fyrir um meiri sveigjanleika

Með fyrirhuguðum breytingum batnar t.d. hagur eldri kvenna sem voru heimavinnandi fram eftir aldri og sinntu heimili og börnum, en þær hafa verið í meirihluta þeirra sem hafa haft framfærsluuppbót og lágar greiðslur úr lífeyrissjóði. Jafnframt bætir breytt kerfi hag þeirra sem eiga sparifé þar sem skerðingarprósenta vegna vaxtatekna fer einnig í 45 prósent, en frá bankahruninu hefur það verið föst fjárhæð, rúmlega 98.000 kr. á ári. Það verður betra en var fyrir hrunið þar sem skerðingar prósenta á vaxtatekjum var 50 prósent.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um meiri sveigjanleika og fjölbreyttari valkosti. Hægt verður að byrja að taka ellilífeyri 65 ára eða geyma það til allt að 80 ára aldurs. Einnig að vera í hálfu starfi og taka hálfan lífeyri.

Undirbúningur breytinga á almannatryggingum hefur staðið yfir í áratug. Landssamband eldri borgara væntir þess að enginn þingmaður víki sér undan því að ganga til verks og afgreiða breytingar á lögum um almannatryggingar fyrir þinglok.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×