Innlent

Eldhús OR kostar 120 milljónir á ári

Glæsilegt eldhús Orkuveitu Reykjavíkur hefur vakið athygli undanfarið í kynningarmyndbandi á Netinu. Eldhúsið kostaði um 60 milljónir króna í uppsetningu árið 2003. Það var ekkert bruðlað, segir fyrrum stjórnarformaður.
Glæsilegt eldhús Orkuveitu Reykjavíkur hefur vakið athygli undanfarið í kynningarmyndbandi á Netinu. Eldhúsið kostaði um 60 milljónir króna í uppsetningu árið 2003. Það var ekkert bruðlað, segir fyrrum stjórnarformaður.

Eldhús í húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur (OR) kostaði 61 milljón í uppsetningu. Eldhúsið var sett upp árið 2003 og þremur árum síðar var bætt við innréttingum fyrir 9 milljónir til viðbótar. Rekstrarkostnaður eldhússins árið 2009 var 119,7 milljónir króna.

Árið 2009 var 3.215 gestum boðið upp á veitingar í húsnæði OR og framreiddar 130 þúsund máltíðir fyrir starfsmenn. Þeir eru nú 623 talsins.

Kynningarmyndband sem sýnir íburðinn í eldhúsinu hefur vakið athygli undanfarna daga og sagði Haraldur Flosi Tryggvason, núverandi stjórnarformaður OR, í samtali við Bylgjuna í gærmorgun að hann furðaði sig á því hvers vegna svona myndbönd væru yfir höfuð gerð. „Menn hafa sýnt metnað í fjárfestingum Orkuveitunnar," sagði Haraldur Flosi. „Við erum svolítið að sitja uppi með það."

Alfreð Þorsteinsson, fyrrum stjórnarformaður OR, segir að húsnæðið hafi ekki verið dýrara heldur en vandað skólahúsnæði í Reykjavík og ákveðið hafi verið að vanda til hluta eins og eldhússins á sínum tíma. „Það var ekkert bruðlað sérstaklega í uppbyggingu þessa eldhúss," segir Alfreð.

„Nýjustu tæki sem voru fáanleg voru sett upp vegna þess að það er heilmikið batterí að hafa mötuneyti fyrir svona mikinn fjölda. Ég held að það hefði þótt skrýtið ef keypt hefðu verið gömul tæki eða eitthvað drasl."

Myndbandið, sem er tæpar tíu mínútur að lengd og kostaði 650 þúsund krónur í heild, var framleitt árið 2004. Samkvæmt upplýsingum Orkuveitunnar var vakti eldhúsið mikla athygli á sínum tíma og sóttust fagmenn og rekstraaðilar mötuneyta mjög eftir því að koma í heimsókn og skoða það. Var myndbandið gert til að svara þessum áhuga og draga úr stöðugum heimsóknum. Myndbandið var gert í samvinnu við þá birgja sem seldu innréttingarnar og tækin og kostað mestmegnis af þeim.

Samkvæmt upplýsingum frá OR er að finna sambærileg eldhús í mötuneytum Alcoa - Fjarðaáls, Arion banka og Norðuráls.

sunna@frettabladid.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×