Erlent

Eldflaugum skotið á bílalest með flóttafólki

Atli Ísleifsson skrifar
Eldflaugum var skotið á bílalest þar sem verið var að flytja fjölda flóttafólks frá átakasvæðum í kringum borgina Luhansk í austurhluta Úkraínu í morgun. Að sögn talsmanns Úkraínuhers eru margir látnir.

Í frétt BBC segir að enn eigi eftir að fá nánari upplýsingar um árásina sem Úkraínuher segir að aðskilnaðarsinna á svæðinu bera ábyrgð á.

Andriy Lysenko, talsmaður Úkraínuhers, segir uppreisnarmenn, sem fá vopn sín frá Rússlandi, hafi skotið á bílalestina og að margir hafi látist, konur og börn þeirra á meðal.

Talsmaður aðskilnaðarsinna hafnar því hins vegar að þeir beri ábyrgð á árásinni. „Úkraínumennirnir hafa sjálfir skotið látlaust á veginn. Nú virðist sem þeir hafi drepið fleiri borgara, líkt og þeir hafi gert í marga mánuði.“

Mikil átök hafa staðið í kringum Luhansk að undanförnu og þjást íbúar borgarinnar nú af miklum skorti á vatni, mat og rafmagni. Hersveitir Úkraínuhers eru nú staðsettar í útjaðri borgarinnar sem enn er á valdi aðskilnaðarsinna.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði nýverið að samkomulag hefði náðst um flutning hjálpargagna frá Rússlandi og til austurhluta Úkraínu eftir viðræður utanríkisráðherra Rússlands, Úkraínu, Frakklands og Þýskalands í Berlín. Ekki hafði þó náðst samkomulag um vopnahlé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×