Innlent

Ekki víst að sorphirða klárist í Grafarvogi fyrir áramót

Atli Ísleifsson skrifar
Á morgun og gamlársdag verður hreinsað frá heimilum í Grafarvogi. Þó er ekki öruggt að hreinsun í Grafarvogi náist fullkomlega fyrir áramótin.
Á morgun og gamlársdag verður hreinsað frá heimilum í Grafarvogi. Þó er ekki öruggt að hreinsun í Grafarvogi náist fullkomlega fyrir áramótin. Vísir/GVA
Sorphirða Reykjavíkurborgar hefur keppst við að hreinsa sorp í þeim hverfum sem ekki náðist að klára fyrir jól. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að starfsfólk sorphirðunnar vinni við erfiðar aðstæður því færð er víða þung vegna hálku og klakaruðninga. „Fólk er beðið um að sjá til þess að aðgengi að sorpílátum sé sem allra best þannig að sorphirða gangi eins vel og mögulegt er.“

Gert er ráð fyrir að sorphreinsun í Árbæjarhverfi, Úlfarsárdal og Kjalarnesi klárist í dag eða fyrir hádegi á morgun. Á morgun og gamlársdag verður hreinsað frá heimilum í Grafarvogi. Þó er ekki öruggt að hreinsun í Grafarvogi náist fullkomlega fyrir áramótin.

Ef sorphirða gengur greiðlega fyrir sig verður reynt að fara í Vesturbæ og Miðborg fyrir áramót en samkvæmt upplýsingum frá sorphirðunni verður það bónus ef sorphreinsunarfólk nær þangað þar sem enn er verið að vinna upp tapaðan tíma frá því fyrir jól.

„Það er mjög mikilvægt að fólk hjálpi okkur við hreinsunina með því að hreinsa vel frá tunnunum þannig að hægt sé að tæma þær hratt og vel,“ segir Eygerður Margrétardóttir hjá sorphirðunni. „Það flýtir fyrir í svona ástandi.“

„Fólki er bent á að auka sorppokar undir almennt heimilissorp fást á öllum stöðvum N1. Þá er hægt að minnka magnið í sorpílátunum með því að flokka sorpið vandlega og koma pappír, pappa og plasti á grenndarstöðvar í borginni eða til endurvinnslustöðva Sorpu,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×