Innlent

Ekki víst að dóttirin hafi vitað af efnunum sem falin voru í farangri mæðgnanna

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Mæðgurnar eru nú vistaðar í Kópavogsfangelsi en á næstu dögum er líklegt að dóttirin verði flutt í vistun á vegum barnaverndaryfirvalda. Fréttablaði/Vilhelm
Mæðgurnar eru nú vistaðar í Kópavogsfangelsi en á næstu dögum er líklegt að dóttirin verði flutt í vistun á vegum barnaverndaryfirvalda. Fréttablaði/Vilhelm
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er ekki víst að sautján ára stúlkan sem tekin var á föstudaginn langa, ásamt móður sinni, hafi vitað af fíkniefnum sem falin voru í farangri mæðgnanna.

Mæðgurnar voru teknar við komuna til landsins með tæp 20 kíló af fíkniefnum í fórum sínum. Um var að ræða 10 kíló af MDMA, 9 kíló af amfetamíni og 0,2 kíló af kókaíni. Styrkleiki efnanna liggur ekki fyrir en við þyngd dóma er oft litið til styrkleika og hættueiginleika efnanna. Móðirin hafði komið tvisvar áður hingað til lands á síðustu mánuðum.

Stórri og viðamikilli tálbeituaðgerð var beitt eftir að mæðgurnar voru teknar í því skyni að hafa uppi á þeim sem þær áttu að koma efnunum til. Það leiddi til þess að íslenskur karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn á hótelherbergi í Reykjavík. Maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglu en ekki tengt málum af sömu stærðargráðu. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru mæðgurnar taldar vera burðardýr sem hafi átt að fá greiðslu fyrir að koma með efnin hingað en ekki er talið að þær hafi komið að skipulagningu innflutningsins.

Dóttirin, sem er aðeins 17 ára gömul og því samkvæmt lögum barn, verður líklega send í vistun á vegum barnaverndaryfirvalda á næstu dögum.

Ekki er útilokað að fleiri aðilar tengist málinu. Um mikið magn fíkniefna er að ræða og því ljóst að mikið fé hefur þurft til að fjármagna kaupin. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er ekki talið að maðurinn sem situr í gæsluvarðhaldi vegna málsins sé skipuleggjandi smyglsins heldur hafi hann verið sendur til að taka við efnunum.


Tengdar fréttir

Sautján ára stúlka í gæsluvarðhaldi

Mæðgur sitja nú í gæsluvarðhaldi eftir tilraun til stórfellds smygls. Stúlkan er barn samkvæmt lögum en vegna náinna tengsla sakborninga þykir ekki rétt að senda hana í sérstakt úrræði á vegum barnaverndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×