Sport

Ekki verið rætt um að senda leikmenn í nákvæma læknisskoðun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að það hafi ekki verið rætt hvort það ætti að láta leikmenn hér á landi gangast reglulega undir nákvæma læknisskoðun.

Á síðasta ári neyddist Guðmundur Atli Steinþórsson, leikmaður Breiðabliks, til að leggja skóna á hilluna eftir hann greindist með hjartagalla. Í skoðun í tengslum við leik Breiðabliks og Jelgava í Evrópudeildinni síðasta sumar kom stækkun á hjartavöðva í ljós.

Í viðtali sem Guðjón Guðmundsson tók við Guðmund Atla í byrjun desember sagðist hann vonast til að leikmenn hér á landi yrðu skoðaðir reglulega.

„Félögin og KSÍ ættu að reyna að komast að einhverju samkomulagi um að láta leikmenn fara í skoðun. Menn tryggja sig ekki eftir á í svona málum. Þegar slysin gerast eru þau alvarleg. Það þarf oft einhver slys til að eitthvað sé gert í svona málum,“ sagði Guðmundur Atli en viðtalið við hann má sjá hér að neðan.

Einungis almenn læknisskoðun

Klara segir að leikmenn hér á landi fari einungis í almenna læknisskoðun.

„Eins og í svo mörgu, fylgjum við forskrift UEFA í málinu. Þetta er inni í reglugerð KSÍ um leyfiskerfið. Eins og staðan er núna er skylda að allir leikmenn í efstu deild karla og á meistaraflokksaldri fari í almenna læknisskoðun,“ sagði Klara í samtali við Gaupa í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Hins vegar eru ítarlegri kröfur á leikmenn sem taka þátt í Evrópukeppnum og þeir fara í hjartaskoðun. Þannig eru reglurnar sem gilda í dag. Það er líka þannig að leikmenn sem taka þátt í úrslitakeppnum yngri landsliða fara í nákvæmar skoðanir.“

Hjartaskoðun er dýr

Að sögn Klöru hefur ekki verið rætt að taka upp nákvæmari læknisskoðanir fyrir leikmenn hér á landi.

„Það hefur ekki verið rætt. Hins vegar er leyfisreglugerðin í sífelldri endurskoðun og það kemur alveg til greina að taka þetta upp. En þá er spurningin hvort þetta á bara að vera fyrir efstu deild eða allar deildir karla og kvenna? Hver á að bera ábyrgðina? Hver á að framkvæma þetta? Hver á að greiða þetta? Hjartaskoðun fyrir leikmann kostar örugglega ekki undir 60-70.000,“ sagði Klara. En ætti ÍSÍ ekki að koma að þessu?

„Mögulega. Þetta er náttúrulega vandamál sem hefur komið upp víðar en í fótboltanum. Hugsanlega væri ráð að ÍSÍ hefði forgöngu í þessu máli. Þetta er mál sem krefst aðkomu sérfræðinga,“ sagði Klara.

Fréttina í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Tryggir ekki eftir á

Guðmundur Atli Steinþórsson, leikmaður Breiðabliks, neyddist til að leggja skóna á hilluna, aðeins 29 ára gamall, eftir að hann greindist með hjartagalla. Í skoðun í tengslum við Evrópuleik Breiðabliks og Jelgava í sumar kom stækkun á hjartavöðva í ljós við ómskoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×