Lífið

Ekki týpan sem setur inn rassamyndir

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Alexandra Sif Nikulásdóttir
Alexandra Sif Nikulásdóttir Vísir/Valli
Ég var smá þykk sem barn og vil ég kenna Maryland-kexpökkum um það, þrátt fyrir það hef ég alltaf elskað að hreyfa mig og æfði á listskauta þegar ég var yngri,“ segir Alexandra, en þegar hún kynntist fyrrverandi kærasta sínum urðu pitsurnar og ísbíltúrarnir sífellt fleiri og að lokum þurfti hún að hugsa sinn gang.

Ræktin var tekin af fullum krafti, en sökum þekkingarleysis hékk hún bara í brennslutækjunum. „Ég var orðin mjög grönn og komin með pönnukökurass sem ég var svo sannarlega ekki að fíla,“ segir Ale og hlær.

Vinkona hennar hafði skráð sig í fitness og Ale langaði mikið að keppa líka, en hafði enga trú á því að hún gæti það.

Það var svo haustið 2010 að hún skráði sig í þjálfun hjá Katrínu Evu Auðunsdóttur, sem nýbúin var að stofna þjálfunina Betri árangur ásamt manni sínum, Magnúsi Bess Júlíussyni vaxtarræktarmanni. „Ég labbaði inn til Katrínar, hokin og mjó með spaghettíhendur og sjálfstraustið ekki upp á marga fiska.

Hún mældi mig og leist svo vel á mig að hún vildi að ég keppti strax eftir tvo mánuði. Ég hafði ekki mikla trú á mér, en fyrst Katrín hafði það ákvað ég að slá til og byrjaði því að undirbúa mig um leið og ég labbaði út,“ segir Ale, og segir fyrstu keppnina hafa verið mikla reynslu fyrir sig. Eftir mótið varð ekki aftur snúið og stefnan tekin á mót erlendis.

„Ég byrjaði bara að borða og lyfta eins og sannur ræktardurgur, með hjálp frá fyrrverandi kærasta mínum, því ég vissi ekkert hvað ég var að gera. Í mars fór ég út og keppti á Arnold-classic og var fyrsta íslenska stelpan sem keppti erlendis í bikiníflokki.“ Þá voru pósurnar hér heima enn eins og áður þekktist í fitnessinu, en úti hafði bikiníflokkurinn þróast. „Það var bara eitt í stöðunni; að læra þessar danspósur af netinu. Ég skil ekki enn hvernig mér tókst þetta,“ segir Ale.



Bulk og baktal

Eftir mótið úti fóru hlutirnir að gerast. Ale fékk auglýsingasamning og sat fyrir í auglýsingum fyrir fæðubótarefni. Haustið 2011 lærði hún til einkaþjálfara, þar sem áhuginn á líkamsrækt jókst sífellt. Í október keppti hún á Arnold Europe, sem haldið var í fyrsta sinn. „Það kom til mín ljósmyndari og hafði orð á því að ég væri eiginlega of kjötmikil fyrir þennan bikiníflokk. Ég bar þetta undir Katrínu og við í sameiningu ákváðum að ég myndi keppa tæpum tveimur mánuðum síðar á Bikarmeistaramótinu í fitnessflokki,“ segir Ale, sem tók sig taki og sigraði, aðeins einu ári eftir að hún keppti í fyrsta sinn. 

Í mars 2012 var stefnan tekin aftur á Bandaríkin, en í þetta sinn í fitnessflokkinn. „Við sáum það strax að ég þyrfti að bæta vel af kjöti á mig ef ég ætlaði að halda mér í þessum flokki, enda er ég þannig gerð að líkami minn heldur illa í vöðvamassa,“ segir hún. Strax eftir keppnina gjörbreytti hún mataræði sínu. „Ég er þannig að ef þú réttir mér plan þá fer ég 150 prósent eftir því,“ segir hún, en planið hljóðaði upp á 3.000 kaloríur á dag af hreinum mat og að lyfta mikið og lyfta þungu. Markmiðið var að þyngjast um tíu kíló en vegna mikils metnaðar urðu kílóin tuttugu. Það var mót í október og hafði hún þrettán vikur til þess að ná kílóunum af sér. 

„Ég var hætt að þekkja mig í spegli, ég sá bara einhverja aðra manneskju því ég var vön að vera grennri.“ Þegar Ale var þyngst, voru það orð annarra sem þyngdu hana hvað mest. „Fólk var að segja alls kyns ógeðslega hluti um mig; að ég væri orðin ógeðsleg og hefði fest í nammiskálinni,“ segir hún. Að taka svona „bulk“ og þyngja sig mikið er afskaplega sjaldgæft hjá stelpum. „Það höfðu ekki margir trú á mér, en ég leit á þetta sem hvert annað verkefni sem ég ætlaði að klára,“ segir hún.

Líkaminn sagði stopp

Eftir að hafa þyngt sig um tuttugu kíló, skorið ótal oft niður og keppt í fitnessflokki í tvö ár sagði líkaminn stopp, líklega vegna of mikils álags á öllum sviðum. 

„Ég er víst mannleg þótt ég sé eins og vélmenni í minni íþrótt og að vera svona metnaðarfull getur líka haft sína ókosti,“ segir Ale.

Í byrjun árs var hún stödd í útlöndum þegar hún veiktist heiftarlega og fékk slæma sýkingu og í kjölfarið léttist hún mikið. Kvöld eitt í vor var hún stödd í afmæli þegar hún fékk fyrsta magakastið. „Ég hélt að þetta væri matareitrun, ég kastaði upp og var að drepast úr verkjum. Næstu mánuði fékk ég þessi köst reglulega og í kjölfarið hrundu kílóin af mér. Þetta var orðið það slæmt að ég þorði ekki að borða neitt nema hafrakökur, frostpinna og kók í dós, því ég hélt engu niðri. Þetta var mjög vont fyrir manneskju eins og mig, sem er vön að borða mikið, hollt og reglulega og hreyfa sig dagsdaglega,“ segir Ale, en í kjölfarið fór hún í fjölda speglana og ofnæmisprófana.

„Það hefur ekkert fundist að mér, en ég tók út sterkan mat og fleira og ég finn að mér líður mun betur.“ Kjaftasögurnar létu enn á ný á sér kræla og í þetta sinn átti Ale að vera með anorexíu. „Þetta var farið að reyna mikið á andlegu hliðina, bæði veikindin og umtalið,“ segir hún, en hún segist í lok sumars hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að snúa þessu sér í hag. „Ég lagði mikið á mig til þess að þyngja mig og þarna var sú vinna farin til einskis, en í stað þess að svekkja mig á því nýtti ég mér það og fór í flokkinn fyrir neðan. Vinkona mín spyr mig oft hvort ég ætla ekki að hætta þessu, en á meðan ég hef gaman af þessu held ég áfram.“

Lærði að elska sjálfa sig

Ale segir íþróttina hafa breyst mikið frá því hún byrjaði fyrst. „Fyrir mér er mikilvægt að vera einlæg í því sem ég er að gera og vera samkvæm sjálfri mér. Ég vil að það sé borin virðing fyrir mér sem manneskju og fyrir því sem ég er að gera,“ segir hún. Umræðan um íþróttina hefur oftar en ekki verið neikvæð og niðurlægjandi. 

Hún segir fitness vera fyrst og fremst keppni í aga og því miður séu ekki allir nógu sterkir til þess að þola þetta. „Það magnaðasta við að keppa er þessi sjálfsskoðun. Á þessum tíma hef ég lært svo mikið um sjálfa mig og lært að elska sjálfa mig, og það finnst mér ómetanlegt,“ segir Ale. Í dag heldur hún úti síðum á Facebook, bloggi og Instagram þar sem hún deilir góðum ráðum og uppskriftum.

„Ég er ekki alveg sú manngerð sem setur inn rassamyndir af sér og einhverju í þeim fíling, heldur legg ég mest upp úr því að kenna öðrum, því það er það sem gefur hjartanu svo mikið og mér þykir vænst um.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×