Innlent

Ekki tímabært að ausa fé í gæluverkefni

Sveinn Arnarsson skrifar
Gert er ráð fyrir á þriðja tug milljarða í tekjuafgang ríkissjóðs.
Gert er ráð fyrir á þriðja tug milljarða í tekjuafgang ríkissjóðs.
Viðvörunarljós blikka í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Þensla og of hraður vöxtur ferðaþjónustu þýða að gæta þarf aðhalds næstu árin. Fjárlagafrumvarp fjármálaráðherra var lagt fram á þingi í dag í skugga stjórnarmyndunarviðræðna. Nýtt þing þarf nú að kljást við framlagt frumvarp í sameiningu, án hefðbundinna flokkadrátta minni- og meirihluta. Ekki var mælt fyrir frumvarpinu í gær eins og svo oft þegar frumvarp er kynnt alþjóð.

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2017 er gert ráð fyrir um 28,5 milljarða króna tekjuafgangi og er þetta í fjórða skipti sem hallalaus fjárlög eru kynnt. 28,5 milljarðar eru um eitt prósent af vergri landsframleiðslu. Tekjur ríkissjóðs eru áætlaðar um 772 milljarðar en gjöldin 743 milljarðar.

Fjármálastefna hins opinbera til næstu fimm ára á grundvelli laga um opinber fjármál var samþykkt síðastliðið sumar af síðasta þingi. Fjárlagafrumvarpið nú byggist í öllum megin­atriðum á þeirri stefnu og þeirri áætlun sem samþykkt var.

Vel hefur tekist á þessu kjörtímabili að bæta afkomu ríkissjóðs. Samanlagður afgangur ríkisjóðs síðustu þriggja ára stefnir í að verða um eitt hundrað milljarðar króna og er þá ekki talið rétt tæplega 400 milljarða stöðugleikaframlag slitabúa föllnu bankanna. Sú upphæð mun nýtast til lækkunar skulda sem eru enn háar eftir bankahrunið í októbermánuði 2008.

Þrátt fyrir glögg dæmi um bætta stöðu ríkissjóðs eru stór viðvörunarljós farin að blikka í stjórnborðum þeirra sem fara með fjármál ríkisins. Vaxandi þensla kann að ógna jafnvægi í ríkisfjármálum. Er þar nefnt að hraður vöxtur ferðaþjónustu setji viðvarandi þrýsting á gjaldmiðil okkar og að laun hafi hækkað umfram framleiðni. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að spenna nái hámarki í byrjun næsta árs.

„Slík þenslumerki í hagkerfinu krefjast agaðrar hagstjórnar og kalla á réttar áherslur í opinberum fjármálum í heild þannig að þau stuðli ekki að frekari þenslu og ruðnings­áhrifum,“ segir í frumvarpi til fjárlaga. „Áfram verður því þörf fyrir aðhaldssama stefnu um vöxt ríkisútgjalda til að auka afganginn og greiða niður skuldir.“

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×