Innlent

Ekki til fé til að greiða sauðfjárbændum næsta haust

Sveinn Arnarsson skrifar
Svo gæti farið að afurðastöðvar greiði bændum aðeins hluta af verði hvers skrokks.
Svo gæti farið að afurðastöðvar greiði bændum aðeins hluta af verði hvers skrokks. vísir/gva
Svo gæti farið að afurðastöðvar hefðu ekki fjármagn til að staðgreiða innlegg sauðfjárbænda í næstu sláturtíð. Síðustu tvö ár hafa verið erfið fyrir sláturleyfishafa í sauðfjárrækt. Bændur eru áhyggjufullir yfir komandi vetri.

Þetta kom fram í máli Ágústs Andréssonar, yfirmanns afurðastöðvar Kaupfélags Skagfirðinga, á aðalfundi Félags sauðfjárbænda í Skagafirði sem haldinn var fyrir skömmu. Ræddu bændur þar stöðuna sem er orðin nokkuð strembin.

Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðastöðvar Kaupfélags Skagfirðinga
Ágúst segir það rétt að hann hafi viðrað erfiða stöðu afurðastöðva á fundinum. Staðan væri þannig nú að eitthvað þyrfti að gera. „Á þessum fundi sagði ég að afurðastöðvar margar hverjar gætu ekki staðgreitt innlegg bænda að fullu í haust. Því þyrfti að koma til þess að sláturhúsin greiddu til bænda hluta af innleggi þeirra og síðan væri hægt að greiða þeim fyrir hinar afurðirnar þegar væri ljóst með sölu á þeim,“ segir Ágúst. Framleiðsla á lambakjöti er rúmlega 3.500 tonnum meiri en innanlandsneyslan. Með sterku gengi krónunnar hefur verð fyrir afurðirnar hríðfallið og því erfitt um vik að selja á vel borgandi markaði erlendis.

Merete Rabölle, formaður Félags sauðfjárbænda í Skagafirði, segir bændur áhyggjufulla yfir stöðunni. „Auðvitað erum við áhyggjufull. Staða krónunnar er að sliga allan útflutning. Það verður erfitt fyrir okkur ef á að lækka afurðaverðið til okkar aftur eins og var gert í fyrra,“ segir Merete.

Ágúst segir minni skrokka vera auðveldari söluvöru eins og staðan er núna. Einnig sé betra ef hægt er að minnka fallþunga skrokkanna og létta þannig af afurðastöðvum á meðan farið er í gegnum þennan brimskafl. „Við höfum alltaf sagt þetta vera tímabundið ástand. Ef hægt er að slátra fyrr en ella og minnka þannig magnið gætum við komist vel í gegnum þetta. Hins vegar samrýmist það ekki ræktunarmarkmiðum en við lítum á þetta sem tímabundið ástand.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×