Innlent

Ekki þess virði að tilkynna um atvinnusjúkdóma

Svavar Hávarðsson skrifar
Heilsutjón og samfélagskostnaður er margfalt meiri vegna atvinnusjúkdóma en vinnuslysa.
Heilsutjón og samfélagskostnaður er margfalt meiri vegna atvinnusjúkdóma en vinnuslysa.
Vinnueftirlitinu berast mjög takmarkaðar upplýsingar um atvinnusjúkdóma hér á landi. Tilkynningar sem stofnuninni berast eru aðeins brot af því sem gera mætti ráð fyrir ár hvert og fyrir vikið tapast dýrmætt tækifæri til forvarna í samfélaginu.

Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlitsins, gerir vanskráningu atvinnutengdra sjúkdóma að umtalsefni í inngangi nýrrar ársskýrslu stofnunarinnar. Þar bendir hann á að árið 2010 var tilkynnt um átta tilfelli en 24 í fyrra, þar af 15 vegna vandamála sem tengjast myglusveppi en þau hafa verið mikið í sviðsljósinu.

Eyjólfur segir ljóst að ný reglugerð um tilkynningu og skráningu atvinnusjúkdóma, sem tók gildi árið 2011, hafi litlum árangri skilað.

Eyjólfur Sæmundsson
Margt kemur til, segir Eyjólfur. Orsakasamhengi getur verið flókið þegar kemur að atvinnusjúkdómum og tilkynningaskylda hvílir á herðum læknis, ekki atvinnurekanda. „Læknar virðast almennt tregir til að kveða upp úr um það að mestar líkur séu á að sjúkdómur orsakist af vinnuumhverfinu. Hér skiptir einnig máli að ekki eru greiddar bætur úr almannatryggingum vegna atvinnusjúkdóma með sama hætti og vinnuslysa og hagsmunir sjúklings af greiningu því ekki taldir miklir. Sá sem fyrir heilsutjóni hefur orðið getur vissulega leitað réttar síns í einkamáli fyrir dómstólum en það er torfarin leið. Að þessu leyti stöndum við langt að baki nágrannalöndunum þar sem betur er séð fyrir þessum hlutum og nefni ég Danmörku sem dæmi,“ skrifar Eyjólfur og bætir við að þetta leiði til þess að kostnaður einstaklinga og samfélagsins komi ekki upp á yfirborðið og hvati til forvarna verði minni en ella.

Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins, segir að athugun innan Vinnueftirlitsins hafi leitt í ljós að búast mætti við allt að 200 tilkynningum á ári að lágmarki. Hér þarf þó að slá varnagla, segir Kristinn. Fjöldi tilfella tengdra myglusveppi kom til vegna þess að vandamálið kom upp á Landspítalanum. „Það leiddi til þess að fleiri hundruð starfsmenn á spítalanum voru skoðaðir. Einstaklingur tilkynnir sig veikan sem leiðir í ljós að hópur fólks er mögulega í hættu og þá eru úrbætur gerðar sem koma mörgum til góða,“ segir Kristinn og hnykkir á forvarnagildi eins tilfellis en jafnframt að það skekki nokkuð myndina sem dregin er upp í tölfræði um atvinnusjúkdóma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×