Erlent

Ekki þarf að flytja Chelsea Manning í fangelsi fyrir konur

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Chelsea sagðist hafa áttað sig á því snemma í æsku að hún væri kona föst í líkama karlmanns. Óskaði hún stuðnings almennings við ákvörðun sína og kynleiðréttingaferlið.
Chelsea sagðist hafa áttað sig á því snemma í æsku að hún væri kona föst í líkama karlmanns. Óskaði hún stuðnings almennings við ákvörðun sína og kynleiðréttingaferlið.
Ákveðið verður í dag hvort hermaðurinn og uppljóstrarinn Chelsea Manning verði löglega skráð undir nafninu, í gögnum bandaríska hersins, í stað nafnsins Bradley Manning. Ákvörðunin verður tekin af dómara í Kansas Í Bandaríkjunum.

Chelsea situr nú í fangelsi í Fort Leavenworth sem er hermannafangelsi fyrir karlmenn. Þar afplánar hún 35 ára fangelsisdóm sem hún fékk í ágúst á síðasta ári fyrir að leka skjölum frá bandaríska hernum til Wikileaks. Hún gekk undir nafninu Bradley þegar dómurinn féll en óskaði stuttu síðar eftir kynleiðréttingu.

Hún sagðist hafa áttað sig á því snemma í æsku að hún væri kona föst í líkama karlmanns. Óskaði hún stuðnings almennings við ákvörðun sína og kynleiðréttingaferlið.

Ákvörðun þess efnis að hún beri héðan í frá nafnið Chelsea í stað Bradley yrði til þess að herinn yrði að breyta öllum gögnum með tilliti til þess.

Herinn þarf þó ekki að breyta framkomu sinni í hennar garð. Sem dæmi þarf herinn ekki að flytja hana úr fangelsinu þar sem hún dvelur nú yfir í fangelsi með aðstöðu fyrir konur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×