Skoðun

Ekki stríð við lækna

Inga María Árnadóttir skrifar
Sem nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur vil ég ekki hefja starfsferilinn á því að lýsa yfir stríði við lækna. Ég ber mikla virðingu fyrir starfi þeirra, þekkingu og eljusemi. Mér hefur þótt afskaplega gott að starfa með læknum þar sem sameiginlegt markmið beggja aðila er að veita skjólstæðingum sem besta þjónustu, koma þeim aftur til fyrri heilsu og sjá til þess að þeim líði eins vel og mögulegt er.

Hins vegar, þegar kemur að því að leysa þau ýmsu vandamál sem íslenskt heilbrigðiskerfi stendur frammi fyrir skapast oft árekstrar. Langir biðlistar, skortur á fagmenntuðu heilbrigðisstarfsfólki, fjölgun aldraðra (og ferðamanna) og aukinn kostnaður kerfisins eru allt vandkvæði sem þarf að taka á. En ólíkar stéttir hafa ólíkra hagsmuna að gæta hvað þessi mál varðar og eitt af því sem stéttirnar greinir á um er hvert eigi að senda þjónustuþegana og hverjir eigi að þjónusta þá. Sterkar raddir lækna hafa t.a.m. ítrekað lagst gegn því að hjúkrunarfræðingar og ljósmæður fái að ávísa ákveðnum tegundum af lyfjum, þrátt fyrir að Landlæknisembættið styðji slíka heimild. Þegar menn greinir á ávinnst ósköp lítið.

Víkkað starfssvið, hvað er það?

Undanfarna áratugi hefur mikil þróun átt sér stað í menntun hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra. Sérhæfing heilbrigðisstarfsmanna er sífellt að aukast og sömuleiðis gæði þjónustu þessara stétta. Í samræmi við stefnu WHO til ársins 2020 hafa stjórnvöld í mörgum löndum lagt til víkkun á starfsviði sérfræðinga í hjúkrun og ljósmóðurfræði. Í skýrslunni kemur fram að með því nýtist þekking og reynsla þessara starfstétta betur, aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu batnar og starfsemin verður skilvirkari.

„Útvíkkað starfssvið hjúkrunarfræðinga“ er tiltölulega óþekkt fyrirbæri hér á landi þó það þekkist víða annars staðar. Í því felst að hjúkrunarfræðingar sem hafa lokið meistaranámi og sérhæft sig á ákveðnu sviði bæti við sig enn frekari þekkingu til að geta tekið að sér fleiri verkefni. Í mörgum löndum hafa hjúkrunarfræðingar með útvíkkað starfssvið heimild til að skrifa upp á tiltekin lyf, kalla eftir rannsóknum, skipuleggja meðferð, skrifa vottorð og panta hjálpartæki fyrir skjólstæðinga, svo eitthvað sé nefnt. Í Hollandi, Svíþjóð og Bretlandi hafa Ijósmæður t.a.m. leyfi til að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum að loknu sérstöku námskeiði í lyfjafræði. Ástæðan fyrir því er að ljósmæður gegna lykilhlutverki í kvenheilsu og forvörnum, þær starfa á heilsugæslustöðvum og hitta allar konur í barneignarferli. Skilvirkni þjónustu ljósmæðra er meiri þegar þær geta bæði veitt ráðgjöf um getnaðarvarnir og ávísað hormónatengdum getnaðarvörnum til heilbrigðra kvenna í kjölfarið. Sé kona með einhverja áhættuþætti eða vandamál sem krefjast nánari athugunar ætti hins vegar að vísa henni í nánara eftirlit og skoðun hjá kvensjúkdómalækni.

Hvar nýtist þjónustan?

Mikilvægt er að hjúkrunarfræðingar hafi umboð til að taka að sér fleiri verkefni svo hægt sé að bæta þjónustuna hér á landi. Þjónusta þeirra getur sérstaklega nýst þeim sem hafa ekki aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar við að fara til sérfræðilæknis, langra biðlista hjá heimilislæknum og sérfræðingum, fjarlægðar við þjónustu, erfiðleika við að ferðast til þjónustuaðila o.fl. Stór hluti þessa fólks eru eldri borgarar og einstaklingar með langvinn heilsufarsvandamál. Í drögum að nýrri skýrslu OECD kemur fram að góð reynsla er af ýmsum útfærslum á víkkuðu starfsviði hjúkrunarfræðinga, sem og ljósmæðra, og hafa fjölmargar rannsóknir sýnt fram á öryggi og gæði þjónustunnar. Í skýrslunni kemur ítrekað fram að þjónustan sem hjúkrunarfræðingar veittu væri ekki síðri en sambærileg þjónusta lækna og stundum þótti hún jafnvel betri sökum þess hversu skilvirk og hagkvæm hún var. Nú er því búið að hrekja eldri fullyrðingar og rannsóknir sem héldu öðru fram.

Sérfræðingar í hjúkrun gætu afgreitt fleiri verkefni í heimahúsum og heimabyggð ef þeir hefðu útvíkkað starfssvið. Það sama á við um hjúkrunarfræðinga í teymi á heilsugæslustöðvum. Þá er brýnt að bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi en skortur á geðlæknum hefur leitt til takmarkana í þjónustunni sem geðhjúkrunarfræðingar gætu leyst að einhverju leyti. Sérfræðilæknar gætu þannig nýtt sérfræðiþekkingu sína í enn sérhæfðari verkefni og þannig myndi þekking og reynsla allra starfsstétta nýtast til fulls. Þjónustan yrði betri á öllum stigum fyrir vikið.

Fjölmörg dæmi eru um að hjúkrunarfræðingar sinni sambærilegum verkefnum og voru talin upp hér að framan þó ekki sé búið að viðurkenna það formlega. Í meistaraverkefni Huldu S. Gunnarsdóttur frá árinu 2013 „Umfang og eðli lyfjagjafa hjúkrunarfræðinga án fyrirmæla lækna á Landspítala“  kemur fram að fjöldi stakra lyfjaávísana hjúkrunarfræðinga voru 69.132 árið 2011. Þá styður Embætti landlæknis beiðni ljósmæðra um heimild til að ávísa getnaðarvarnalyfjum að loknu sérstöku námskeiði í lyfjafræði og kemur það fram í umsögn þeirra um breytingar á frumvarpi til lyfjalaga. Því er löngu orðið tímabært að festa í lög heimild þessara stétta til að ávísa lyfjum en það myndi auka ábyrgðartilfinningu þeirra og þar með öryggi sjúklinganna.

Aðlaðandi starf

Til þess að Ísland sé samkeppnishæft við önnur lönd þurfa sömu atvinnutækifæri að vera til staðar hér og annars staðar. Útvíkkun starfssviðs hjúkrunarfræðinga gerir starfið bæði fjölbreyttara og meira aðlaðandi. Yrði víkkað starfssvið hjúkrunarfræðinga formlega viðurkennt, myndu alls ekki allir hjúkrunarfræðingar velja að fara þá leið. Í Bandaríkjunum er langhæsta hlutfall hjúkrunarfræðinga með víkkað starfssvið í heiminum en það samanstendur þó eingöngu af 5,6% af hjúkrunarfræðistéttinni, sbr. 0,2-1,4% í öðrum löndum samkvæmt skýrslu OECD.  Í íslensku samhengi væri um 6 til 168 einstaklinga að ræða ef miðað er við að starfandi hjúkrunarfræðingar séu um 3000 talsins.

Sérhæfðir hjúkrunarfræðingar munu því seint taka yfir störf lækna líkt og einhverjir kunna að halda fram. Þvert á móti. Fyrirkomulagið felur í sér samstarf við lækna sem opnar á möguleika fyrir hjúkrunarfræðinga til að sinna fleiri verkefnum, t.d. þeim sem læknar geta erfiðlega sinnt sökum anna eða læknaskorts, t.a.m. í heilsugæslunni á landsbyggðinni.

Annað landslag

Hafa verður í huga að samsetning læknastéttarinnar á Íslandi er ekki eins hérlendis og erlendis vegna þess að mikill meirihluti lækna hér á landi eru sérfræðimenntaðir. Einn af takmarkandi þáttum íslenskrar heilbrigðisþjónustu, ef borið er saman við Vesturlönd, er að hér er ekki unnt að bjóða upp á fullt sérnám í lækningum, meðal annars vegna fámennis. Í dag geta læknar eingöngu lokið sérhæfingu í geðlæknisfræði og heimilislækningum hér á landi. Íslensk læknisþjónusta býr yfir þeim styrkleika að sérfræðilæknar sækja menntun og þjálfun erlendis á mörgum af fremstu háskólasjúkrahúsum heims. En þegar unglæknar fara erlendis til þess að sérhæfa sig (að meðaltali í 5-7 ár) myndast stórt skarð í læknastéttinni.

Önnur lönd njóta góðs af vinnuframlagi þessara unglækna en þeir starfa oft sem deildarlæknar á spítala eða sem almennir læknar á heilsugæslustöð og eru iðulega með sérfræðilækni á bak við sig. Hægt er að ráðast í ýmis úrræði til að fylla upp í þetta skarð en sérnám í almennum lyflækningum hlaut nýverið mikilvæga alþjóðlega vottun og með því hefur verið lagður grunnur að því að sérgreinar lækninga bjóði upp á fyrri hluta sérnáms á Íslandi. Þannig verður haldið í hluta þeirra unglækna sem annars hefðu farið erlendis í nám og er það jákvætt. En fleiri lausnir við þessum vanda standa til boða þar sem sérfræðingar í hjúkrun með útvíkkað starfssvið gætu einnig veitt þjónustu til ákveðinna sjúklingahópa í nánu samstarfi við sérfræðilækna.

Fyrir sjúklinginn

Áríðandi er að stjórnvöld taki ákvörðun um að veita sérfræðingum í hjúkrun heimild til víkkaðs starfssviðs, m. a. með breytingu á lyfjalögum svo þeir geti ávísað tilteknum lyfjum. Margra ára  reynsla er af lyfjaávísun hjúkrunarfræðinga með tilskilda þjálfun og réttindi í löndum eins og Bandaríkjunum, Bretlandi, Ástralíu, Nýja Sjálandi, Írlandi og í Skandinavíu. Ótal rannsóknir hafa sýnt fram á öryggi og gæði þjónustunnar.[12]  Með því að veita sérfræðingum í hjúkrun leyfi til að taka að sér fleiri verkefni eru meiri líkur á því að hægt verði að vinna bug á biðlistum og skapa samfelldari þjónustu hjá einstaklingum með langvinn veikindi. Einnig er líklegt að aðsókn í hjúkrunarfræði aukist vegna aukinnar starfsánægju og möguleika hjúkrunarfræðinga til starfsþróunar.

Þetta á ekki að snúast um hagsmuni ólíkra heilbrigðisstétta. Þetta snýst um enn frekari samvinnu þeirra á milli og hvernig við megnum að leysa krísu heilbrigðiskerfisins með því fagfólki sem við höfum, svo að skjólstæðingar okkar fái sem besta þjónustu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×