Innlent

Ekki möguleiki að bjarga fjölda fólks úr háska

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Doktor Björn Karlsson telur að efla þurfi Landhelgisgæsluna svo Íslendingar geti sinnt björgunaraðgerðum á hafi betur.
Doktor Björn Karlsson telur að efla þurfi Landhelgisgæsluna svo Íslendingar geti sinnt björgunaraðgerðum á hafi betur. mynd/einkasafn
Doktor Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, telur að efla þurfi Landhelgisgæsluna svo Íslendingar geti sinnt björgunaraðgerðum á hafi betur.

Björn hélt opnunarfyrirlestur ráðstefnunnar Björgun 2014 og fjallaði meðal annars um björgunaraðgerðir á sjó. Hann hefur verið að nota áhættugreiningaraðferðir til að skoða björgunarviðbúnað Íslendinga á norðurslóðum.

„Við höfum aðallega skoðað tvær sviðsmyndir, annars vegar þar sem þarf að bjarga takmörkuðum fjölda manna og hætta er á umhverfisslysi og hins vegar hvað það varðar að reyna að bjarga miklu fleiri manneskjum, til dæmis ef skemmtiferðaskip með mörg hundruð eða þúsund innanborðs lendir í háska,“ segir Björn.

„Við höfum vissa möguleika til að sinna björgunarstarfi, sérstaklega ef við við þurfum að bjarga fáum. Ef við ætlum hins vegar að fara að bjarga mörg hundruð manneskjum eða jafnvel þúsund, til dæmis skemmtiferðaskipi, eigum við eiginlega varla nokkurn einasta möguleika,“ útskýrir Björn.

Íslendingar eru ábyrgur fyrir mjög stóru svæði í björgunarmálum og segir Björn Landhelgisgæsluna vera með gott skip, góða flugvél og þyrlur. „Ef við ætlum að bjarga lífum þá er tímaþátturinn mjög mikilvægur, við þurfum að vera fljót og það þýðir þyrlur.“ Hann segir Íslendinga alltaf þurfa að leita til allra nágranna sinna komi til umhverfisslyss. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×