Innlent

Ekki merki um gosóróa

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Múlakvísl í morgun.
Múlakvísl í morgun. vísir/frikki þór
Ekki eru merki um gosóróa í Kötlu, að sögn Gunnars B. Guðmundssonar, sérfræðings á sviði jarðvár hjá Veðurstofu Íslands. Hins vegar sé vel fylgst með gangi mála. Litakóði Kötlu er farinn úr grænum í gulan. Gulur litakóði þýðir að eldstöð sýni merki um virkni, umfram venjulegt ástand.

„Það að litakóðinn sé gulur þýðir bara að menn séu aðeins meira vakandi, en við sjáum engan gosóróa eins og staðan er núna,“ segir Gunnar.

Jökulhlaup stendur yfir í Múlakvísl en búist er við að flóðið muni ná hámarki innan fárra klukkustunda. Fólk hefur verið varað við því að vera í nágrenni árinnar og er Vegagerðin tilbúin til þess að loka veginum.

„Þetta er órói í jarðhitakötlum sem eru undir Kötluöskjunni, líklega norðaustarlega, en rafleiðnin er líklega komin í hámark. Það urðu tveir jarðskjálftar þarna um klukkan átta í morgun, í kringum 1,5 að stærð, og það voru óróakviður þarna í nótt,“ segir Gunnar og bætir við að áfram verði fylgst með gangi mála.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir að unnið sé eftir ákveðinni áætlun og að ekki verði gripið til aðgerða, á borð við lokanir á vegum, nema brýn nauðsyn sé til. 

„Við lokuðum í gær vegum og slóðum í kringum Mýrdalsjökul og það er sá viðbúnaður sem við erum með. Núna í morgunsárið höfum við verið að stöðva ferðamenn og hvetja fólk til að halda áfram. Við höfum ekki gripið til þess að loka þjóðveginum, enn þá allavega. Við ætlum aðeins að sjá hver framvindan verður,“ segir Sveinn Kristján.


Tengdar fréttir

Sterk brennisteinslykt við Vík í Mýrdal

Íbúar og vegfarendur í og við Vík í Mýrdal hafa í dag orðið varir við mikla brennisteinslykt og hafa fréttastofu borist ábendingar vegna hennar.

Flóðið að ná hámarki

Fólk er varað við því að vera í nágrenni árinnar vegna gasmengunar, áin er dökk og mikill fnykur er frá henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×