Menning

Ekki lengur í uppvaskinu

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Kristján Guðmundsson Teikning 13, 1989 Grafít, pappi.
Kristján Guðmundsson Teikning 13, 1989 Grafít, pappi.

Kristján Guðmundsson er einn þekktasti myndlistarmaður Íslendinga og er talinn á meðal helstu frumkvöðla á sviði hugmyndalistar og minímalískrar myndlistar. Sýning á eldri verkum hans frá árunum 1972 til 1989 var opnuð í Galleríi I8 á fimmtudag.

Kristján Guðmundsson Orsök og afleiðing I-III, 1976. ?Leiðréttingarborði, pappi.



„Ég vinn sem minnst í dag, það er prinsippið,“ segir Kristján kankvís þegar blaðamaður spyr hann hvernig listsköpun hans sé háttað. Hann er með vinnustofur en segist lítið heimsækja þær. „Það er nú aðallega geymsla fyrir efni,“ segir hann. „En jú, ég er nú alltaf að gera eitthvað.“

Sýningarferill Kristjáns spannar um fjóra áratugi. Fyrstu sýninguna hélt hann á Mokkakaffi árið 1967. Síðan þá hefur Kristján sýnt víða um heim og er fyrir löngu orðinn einn þekktasti myndlistarmaður þjóðarinnar. Hann tilheyrir SÚM-hópnum svokallaða, hópi ungra og framsækinna listamanna sem vöktu athygli á sjöunda áratugnum.

Hraðar, hægar heitir þetta verk og er frá árinu 1984. Tvær malarhrúgur, önnur mynduð úr fjörugrjóti, hin mulin með vélarafli. Að baki verkinu eru ferli sem annars vegar hafa tekið margar aldir og svo hins vegar örskotsstund. Fréttablaðið/Stefán

Kristján notast sjaldnast við efnivið ætlaðan listamönnum við listsköpun sína og hefur frekar sótt í það almenna, iðnaðarframleiðslu, hið stóra og fjöldaframleidda.

Hvaðan fær hann innblástur? „Ég veit það ekki. Héðan og þaðan. Ég fæ innblástur frá alls konar hlutum. Vinum mínum, öðrum listaverkum og úr umhverfinu. Ég er ekki mikið að spá í því, bara allt í kring. En auðvitað er það þannig samt að ef þú spáir ekki í hlutina í kringum þig þá finnur þú ekki neitt.

Kristján Guðmundsson Teikning, 1987. Grafít, pappi.

Kristján flutti árið 1970 með fjölskyldu sinni til Hollands þar sem hann bjó í níu ár. Meðal verka á sýningunni eru verk sem hann vann meðan hann bjó í Hollandi. Þau ár eru mikilvægur tími rannsóknar og þróunar í list hans en þar rannsakaði hann grunnatriði teikningar sem liggja að baki teikningu, pappírinn, pennann og línuna, líkt og sjá má á ýmsum verkum hans á sýningunni. Teikningin varð að vísindalegu ferli þar sem hann notaðist meðal annars við skeiðklukku og reglustiku þegar línan var dregin.

Þetta má meðal annars sjá í verkinu 6 x 7 jafntíma línur frá 1974 þar sem hann notast við blátt skrifblek. „Hver lína er jafn lengi að verða til en þær eru mismunandi,“ útskýrir Kristján.

Í verkinu Teikning 1972 er ártalið að finna í titli myndarinnar og er jafnframt lykill að lestri hennar. „Hér eru þrír fletir sem eru 1.972 fersentimetrar, ég gerði aðra mynd árið 1973 þar sem ég var að gera það sama og þannig breyttist hún örlítið,“ segir Kristján og heldur áfram. „Verkið myndi minnka ef ártalið væri lægra og verða að engu í árinu núll.“

Á sýningunni er líka að finna verkin Orsök og afleiðing frá árunum 1974-1976 þar sem listamaðurinn tekst á við teikninguna með öfugum formerkjum. „Þarna notaði ég leiðréttingarborða úr ritvél. Og það myndar allt mismunandi afleiðingar,“ segir hann.

Eftir heimkomuna frá Hollandi urðu ákveðin þáttaskil í listsköpun Kristjáns og fór hann meira að vinna með þrívídd. Meðal annars gerði hann verkið Hraðar, hægar. Þar er um að ræða tvær malarhrúgur. „Önnur er mynduð úr fjörugrjóti en hin var mulin með vélarafli,“ segir hann.

Kristján Guðmundsson Orsök og afleiðing nr. 1-4, 1976. Leiðréttingarpappír, pappi.

Þrátt fyrir að Kristján sé í dag einn þekktasti myndlistarmaður þjóðarinnar og vinsæll erlendis þá hefur hann ekki alltaf getað lifað á listinni og þurfti oft og tíðum að vinna aðra vinnu með.

„Ég vann oft í uppvaski, bæði í Hollandi og hérna heima. Þegar ég kom heim frá Hollandi fór ég að vinna í uppvaski á Landspítalanum við stóra uppvöskunarvél,“ segir hann. Fékk hann innblástur þaðan? „Nei,“ segir hann hlæjandi. „Ég á það eftir, en ég myndi líklega ekki fá vinnu við uppvask í dag.“

Hann segist aldrei hafa misst áhugann á listinni. „Nei, ég er enn að. Ég hef haldist í þessu. Líka kannski svo ég þurfi ekki að fá mér alvöru vinnu eins og bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum talar um.“

Sýning Kristjáns í Galleríi I8 stendur til 24. október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×